Að ferðalokum | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Að ferðalokum

Fyrsta ljóðlína:Hálfur máni
bls.60-63
Viðm.ártal:≈ 1975
1.
Hálfur máni
yfir Húsadal
glottir grimmt og kalt
skopast hann að okkur
skemmtireisu
um landið þvers og langs.
2.
Stal ég hjá þér kossi
stúlkutetur
lengst inn í Langadal,
í bræði þú ypptir
brún plokkaðri
farvaða fýldir grön.
3.
Skalf ég við hlið þér
hjá Skógafossi
langa og leiða nótt,
illa var ég svikinn
á yli þínum,
þvílíkt og annað eins.
4.
Kembdi ég þér hærur
við Kúðafljót
fast og freklega,
gaukaði þá að mér
gervibrosi
máluð meyjarvör.
5.
Hímdum við í tjaldi
á Hveravöllum,
sífraðir þú um svengd,
fleygði ég í fússi
flatkökuparti
í þig, ástin mín.
6.
Kroppuðum við af rifi
á Kaldadal,
hugðum hangikjöt vera,
drukkum við úr brúsa
daunillt og rammt
Kaabers-kaffi með.
7.
Ók ég þér í jeppa
um Uxahrygg,
sóttist seint ferðin,
blés ég úr leiðslum
bensínstíflu
á stundarfjórðungs fresti.
8.
Blésum við í sönglúðra
í Bjarkarlundi,
gjörðist mikill gnýr,
blíða blómálfa,
ljúfa ljósálfa
ærði okkar píp.
9.
Elduðum við súpu
í Atlavík,
brann brasið við,
samt við það átum
af sama diski,
höfðum skel fyrir skeið.
10.
Dró ég yfir haus þér
á Dynjandisheiði
ljóta lopapeysu,
skýldi þá hið neðra
skrokki þínum
forljótt föðurland.
11.
Blés ég þér upp vindsæng
í Vaglaskógi,
tróð töppum í göt,
háttaðir þú og snérir
hrygglengjunni
miskunnarlaus í mig.
12.
Skorpna flatkökur,
franskbrauð myglar,
kasúldnar kjöt og egg,
en þvermóðskunni
í þínu hjarta
vinnur ekkert á.
13.
Lokið er okkar
landshornaflakki,
ei var för til fjár,
kneyfað er koníak,
sopinn sénever
lapin spíralögg.