Í túnfætinum | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Í túnfætinum

Fyrsta ljóðlína:Líttu út í góða veðrið
bls.21
Viðm.ártal:≈ 1975
1.
Líttu út í góða veðrið
litli vinur minn.
Mál er nú að tifa
út í túnfótinn.
2.
Silfurskært er erlunnar
sumarglaða lag:
býður hún þér, glókollur,
góðan dag.
3.
Héðan sérðu fjöruna
og fjallsins efstu brún.
– Vítt er það og fagurt
þitt föðurtún.
4.
Gullnu skarta flosinu
hin grænu móabörð.
Faðminn á hún mjúkan
þín móðurjörð.
5.
Hlær við þér í lautunum
hennar dýra skrúð,
fífildrottning silkibleik,
og sóley prúð.
6.
Ljósálfarnir hjala blítt
við lítinn Íslending,
vaka þeir þér yfir
og allt um kring.
7.
Hjúfraðu þig, litli vinur,
hjarta lands þíns að.
Gott er að læra ungur
að elska það.