Þórhildur skáldkona | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Þórhildur skáldkona

Fyrsta ljóðlína:Þú gengur ein um sveitir
bls.2013 bls.57-58
Viðm.ártal:≈ 1000
Flokkur:Söguljóð
1.
Þú gengur ein um sveitir,
en gangan fætur þreytir,
og bakið hefur bognað og beiskjan fyllir hug.
En kunn með orðlist snjalla
þú kveður fyrir alla,
því andi þinn á enn sitt líf með óbreytt skáldaflug!
2.
Það veit ei neinn um und þá
sem opnaðist við stund þá
sem eyðilagði allt þitt líf og allan farnað þinn.
En nánast allir vita
hvað varð til gæfuslita,
og margir auka í þá sögu einhvern spuna sinn!
3.
Þórhildur er nafn þitt
og þekkt er kvæðasafn þitt,
en þreytuefni þarftu mörg að þola dag og nátt.
En þyngst var samt að reyna
er Þráinn lét þig eina
og þér var burtu vísað úr veislu á versta hátt!
4.
Myndir þær ei dvína,
þær magna harma þína,
og með þér lifa meira en nóg og minna fast á sig.
Og ennþá manstu Þráin,
þín ást er ekki dáin,
þó skapað hafi hann skaða þinn og skilið svo við þig!
5.
Og brjóst þitt illa sært er,
við setur hvergi vært er,
þú reikar ein og yfirgefin oft um kalda grund.
Svo margt þinn huga pínir,
það sækja að þér sýnir,
og sérhver þeirra samleið á með sárri reynslustund!
6.
Þú horfir út í bláinn,
en horfinn er hann Þráinn,
höggvinn gegnum höfuðskel af Héðni syni Njáls.
Hann hélt sig vera stóran
en horfin eins var glóran,
gegn afarmennum engum duga efni hroka máls!
7.
Þá hverfa myndir virkar
og verða dauðamyrkar,
á einni stundu er öllu breytt og ekkert líkt og fyrr.
Eitt högg frá Rimmugýgi,
það verður strax að vígi,
svo sá er lifði og lostinn var – hann liggur dauðakyrr!
8.
Það Þráinn fékk að reyna
í hópi sinna sveina,
og svipuð örlög enda gerðu á ævidaga Hrapps.
Á fljótsins höfuðísum,
þeir mættu voða vísum,
það fara margir flatt sem eru fullir ofurkapps!
9.
Þú finnur tárin streyma,
en færð ei neinu að gleyma,
sem með þér lifir meira en nóg og minnir fast á sig.
Þær sorgir í þér brenna
og sviðann muntu kenna,
því kvölin sú er kvölin mesta er kvalið hefur þig!
10.
Þú horfir út í bláinn
og hugsar með þér: „Þráinn,
því sveikstu mig og sjálfan þig og settir þig í mát?“
En engin gefast svörin
og ekki batna kjörin,
á bak við hól og blásinn mel þú brestur oft í grát!
11.
En enginn að þér hugar
né sér að bölið bugar
það skap er áður skerpu jók með skáldaflugið sitt.
Þú gengur ein um sveitir
og gangan fætur þreytir
og bráðum verður brjóst þitt kalt og brostið lífið þitt!


Athugagreinar

Kvæðið er byggt á efni í Njálssögu.