Skilnaðarljóð | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Skilnaðarljóð

Fyrsta ljóðlína:Þrjóta mig ávörp í orðum
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Þrjóta mig ávörp í orðum
allt það ég segja vildi.
Þrumir í þagnargildi
það er við sungum forðum.
Leiti þín – langir dagar.
Lyfti þér – sýn til stjarna.
Fylgi þér blessun barna.
Blómgist þér – grónir hagar.
2.
Geymi þig góðar vættir
gefi þér konu, syni,
dætur og virktavini.
Vaxi þér stórar ættir.
Seinna þá ertu sestur
sjálfur að helgum steinum:
Geti af þínum greinum
gefist prestur hér vestur.


Athugagreinar

Nýr prestur kom í Æsustaðaprestakall 1952, Sr. Birgir Snæbjörnsson, og kom strax til liðs við Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps og var orðinn formaður kórsins þegar hann flutti fáum árum síðar norður í Höfðahverfi og gerðist prestur Laufæsinga. Kórmenn gáfu honum skilnaðargjöf, gestabók, og rituðu þar í kveðjur sínar, sumir í bundnu máli eins og söngstjórinn, Jón Tryggvason og Jónas bróðir hans.