Minna | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Minna

Fyrsta ljóðlína:Ævinnar um sóknarsvið
bls.183-186
Viðm.ártal:≈ 1900
Flokkur:Eftirmæli
1.
Ævinnar um sóknarsvið
sérhvers bíður glíma
því er best að venjast við
vosbúðina í tíma.
2.
Móðurhöndin mjúk og hlý
mönnum öllu kærri
mér var bernsku allri í
ótal rasta fjærri.
3.
Fyrsta degi ævi á –
ekki er meiri hróður –
í krapa var ég fluttur frá
föður bæði og móður.
4.
Ef ég minnist einhvers góðs –
á því mest skal taka –
er það fyrst til aldins fljóðs
að ég lít til baka.
5.
Þótt þig, gamla Minna mín,
mæddi ellin þunga
trúa milda mundin þín
mína leiddi unga.
6.
Í liðnum tíma laungum er
ljúft við sumt að una
flest þó best mér finnst hjá þér
frá því eg tók að muna.
7.
Enn eg gleyma ekki má
aftanstundu dökkri
er hljóður sögur hlýddi eg á
við hnén á þér í rökkri.
8.
Með sannfæring þú sagðir frá
sólginn var eg að heyra
af fíkn eg allur flugði þó
að fá að vita meira.
9.
Mundi varla meistari einn
mýkra færa í letur
og ennþá finnst mér ekki neinn
orða sögur betur.
10.
Eg heyrði ys og draugadyn
dverga kirpingsjarma
skottu gnauð – og ganda hvin

geiga í mánabjarma.

11.
Eg heyrði skrímsl af skelfum sæ
skrölta á flæðarmölum
stundum hóað heim að bæ
hjörð í jökuldölum.

12.
Úrburðar í holti hljóð
heyrði eg, vein og grátinn
og í húmi fram á flóð
fara huldubátinn.
13.
Undirheima tún og torg
tindruðu í ljósaflóði

og eg sá hvar álfaborg

öll í töfrum glóði.

14.
Þá eru allar þulurnar –
það er í fulla skjóðu –
barnagælur, bögurnar
bænir og versin góðu.

15.
Þó kunni eg lítt að kenna til

kalinn á lyndi og mundum
mér finnst eg ennþá finna yl
frá þeim yndisstundum.
16.
Ef að eitthvað mæddi mig –
af miklu ei barnið grætur –
fór eg æ að finna þig
og fá þar raunabætur.



24.
Til ellikvölds þú minnist mín,
manns í fjarlægðinni,
þrotna mér og minning þín
má ei nokkru sinni.
25.
Þú varst sómi þinni stétt, –
það er réttur kvarði.
Sé þér Minna mjúk og létt
mold í Ásagarði.