Sungið á skólaslitum 1895 | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Sungið á skólaslitum 1895

Fyrsta ljóðlína:Menn hyggja að lífið sé ærsl og ys
Höfundur:Valdimar Briem
Heimild:Fjallkonan.
bls.bls. 110-111, ár 1895 3.7. 27. tbl.
Viðm.ártal:≈ 1900

Skýringar

Jón Þorkelsson eldri f.1822 sleit latínuskólanum síðasta sinni og höfundur ávarpar hann í ljóði sínu.
1.
Menn hyggja að lífið sé ærsl og ys,
og allt á hjólum og þönum gengur.
Og sá, er laus er við þras og þys,
ei þykir dugandi maður lengur.
Enn oft er mestur og manna bestur
sá maður, er unir við skrift og lestur;
— og það ert þú.
2.
Menn hyggja vísindin hljóm og glys
og heimi vorum ei neitt til þarfa,
og alla vinna til ónýtis,
sem ei með höndunum tómum starfa.
Já, þarft er stritið, þó verður vitið,
sem vinnur mest, hvar sem á er litið,
— og þar með þitt.
3.
Menn hyggja’ málin sé andlaus öll
og eintómt samsafn af dauðum myndum
að beygja ,tíðir’ og fást við ,föll’
sé fjarri menntunar sönnum lindum.
Enn föll og tíðir,
sem læra lýðir,
upp ljúka menntanna hafi’ um síðir,
Já, það veist þú.
4.
Menn hyggja feyskin hin fornu mál,
þær frægu tungurnar suðurlanda.
En enn er grískan þó stælt sem stál,
og sterk er latínan enn að vanda.
Menn á þær herja, en árás hverja
þær alltaf standast, því hraustir verja,
og þar með þú.
5.
Menn hyggja fátækt vort móðurmál;
— það mestur heiður er vor og sómi,
sem grískan lipurt með líf og sál,
sem latnesk tunga að krafti’ og hljómi.
Vor forna tunga með fjörið unga,
hún ferst ei tímans í straumi þunga;
að því vannst þú.
6.
Menn hyggja málfræðings hjarta þurrt,
og hann sé bundinn við gamla skrjóða;
enn þeirra blöð eru blöð á jurt,
sem blessun dýrmæt er allra þjóða.
Ei þarf að kvarta að þurrt sé hjarta,
ef það er hreint eins og gullið bjarta;
og það er þitt.
7.
Menn hyggja að ellin sé leiðinleg,
því langur finnst mönnum stundum dagur.
Enn oft er þetta á annan veg,
og aftanljóminn er hreinn og fagur.
Þótt halli degi, það húmar eigi,
ef hreinn er kveldbjarminn yndislegi,
og það er þinn.
8.
Menn hyggja að æskan sé óþakklát,
er ólgar blóðið og fjörið sýður.
Já, hún er stundum úr hófi kát,
en hún sín gætir, er mest á ríður.
Sjá, tímínn streymir, en tryggð hún geymir,
og sínum vinum hún aldrei gleymir,
og þá ei þér.
9.
Menn hyggja að þjóðin sé heimsk og þrá,
enn hún er það ekki nema stundum;
hún sér það stundum fyrst eftir á,
hún átt hefir dýrmætt gull í mundum.
Enn suma hún metur og gleymt ei getur,
og geymir nöfn þeirra öllu betur,
og þar með þitt.
10.
Menn hyggja konuna minni en mann,
en mörgum sinnum vér annað reynum,
þótt sama vinni’ hún ei verk sem hann,
hún vanda hefir í mörgum greinum.
Hún lífið bætir og böl upprætir
og blessar húsið og alla kætir;
— og þá átt þú.
11.
Menn hyggja að deyi hér út sú ætt,
sem enga hefir sér getið niðja.
Enn við því aldrei þó verður hætt,
et verkin lifa, sem brautir ryðja.
Þótt höndin þreytist og hagur breytist,
það hrós æ lifir, sem slíkum veitist;
og það fær þú.
12.
Og nú þín skilnaðarskál það sé:
Vér skrifum þig út með heiðri’ og sóma.
Þú staðizt hefir þitt próf með ,præ’,
já, ,præ’ — ,præ ceteris’ allir róma
já fyrir löngu
já langa löngu
þér landið ætlaði ,það með slöngu’
Já það fær þú.