Klukkunni flýtt | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Klukkunni flýtt

Fyrsta ljóðlína:Í nótt var ævi mín aukin um klukkustund
bls.2. ár, önnur útg. bls. 18-19
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Í nótt var ævi mín aukin um klukkustund.
Ég ætlaði að sofa og nota vel þennan tíma.
Margt skeður óvænt, ég lenti á farand fund
og fór að hátta, þegar byrjaði að skíma.
2.
En víxlarnir falla. Í vor mun klukkunni flýtt,
þá verð ég að greiða hvernig sem málin standa.
Vonlaust ég fái framlenging upp á nýtt.
Fjandi er slæmt að lenda í svona vanda.


Athugagreinar

Ritstjóri Húnavökunnar/Þorsteinn Matthíasson er gestkomandi á Leysingjastöðum hjá hjónunum Oktavíu og Halldóri og spyr/staðhæfir:
– Þú yrkir Halldór?
– Já auðvitað yrki ég. Yrkja ekki allir menn? Ég er alltaf að yrkja. – Túnið mitt – byggingar –allt, sem mér dettur í hug og ég framkvæmi, það er minn skáldskapur. Annars áður fyrr, meðan ég fór í göngur og þess háttar, þá urðu stundum til beinakerlingavísur. Nú allar gleymdar. – Flest af því sem ég geri, þegar ég fæst við ljóðasmíði, eru dægurflugur– hugdettur, ekki til að geymast.
– Mundir þú vilja leyfa mér að setja eina slíka hugdettu inn í samtalið?
– Ég veit ekki. – Jæja.
Þá kemur ofanskráð ljóð.