Gyðingurinn gangandi | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Gyðingurinn gangandi

Fyrsta ljóðlína:Til dómsins eru mér dagar taldir
bls.131
Viðm.ártal:≈ 1875
Flokkur:Söguljóð
1.
Til dómsins eru mér dagar taldir,
drottins míns er það hefndargjöf,
nú hef ég leitað í nítján aldir,
nár, þótt kvikur, að minni gröf.
2.
Mig hefur flætt á mörgum granda,
mér hef ég drekkt í jökulsám,
elt dauðann geyst um gula sanda
á gengnum stúfunum upp að hnjám.
3.
Aldrei úr orðum drottins dvína
dómurinn má, sem í þeim býr,
á mér þau svo með hrelling hrína,
að hræddur mig sjálfur dauði flýr.
4.
Allt fyrir það, þótt ein: að deyja,
ósk mína fylli dapra lund,
kvíði ég þó, ef satt skal segja,
síðustu tilveru minnar stund,
5.
deginum, þegar þagnar heimur,
þornar upp sær, en hrynja fjöll,
eyðist og hverfur hnatta geimur,
hnígur sviplega skepnan öll.
6.
Þegar að sortnar sól í óttu,
sökkva stjörnur, en máni deyr,
á hinstri, kaldastri nötra´ eg nóttu,
nötra, kvíði og veit ei meir.