Páskabæn | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Páskabæn

Fyrsta ljóðlína:Burt frá mér sérhver illur andi
Heimild:Hendingar.
bls.61-62
Viðm.ártal:≈ 1925

Skýringar

um borð í botnvörpungnum Skúla fógeta veturinn 1913.
1.
Burt frá mér sérhver illur andi
alla leið beint til Helvítis;
heilagir englar hjá mér standi,
hamli því, að mér grandi slys;
leiddu mig, guð, um land og sjó,
láttu mig alltaf hafa nóg.
2.
Gefðu við fiskum vel í vetur,
vernda frá slysum sérhvern mann;
fylltu pokann með fiski betur,
færðu´ oss hann alltaf þrískiptan;
láttu´ ekki ufsa í því sjást
og alla poka heila nást.
3.
Þá gengi fljótt að fylla´ hann Skúla,
á fimmta degi við kæmum inn,
sumir gengju með gleiðan túla,
glaðir að líta hlutinn sinn;
Halldóri veittist verðugt lof,
varla mundi það samt um of.
4.
Gengi það eins á „Baldri“ og „Braga“
„blessaðir“ segði „Gói“ minn,
„þið kunnið vænan þorsk að draga,
þarna sést ekki stórufsinn;
aflinn við Portland ekki´ er slor,
en er þetta´ úr „Pítarítisfor?“
5.
Ef þetta nú að óskum gengi
ættum við frí í heilan dag,
„sjampaní“ flösku sérhver fengi
og „sígara“-kassa í on´álag.
Hvort við færum á „fyllirí“
frjálst er öllum að trúa því.


Athugagreinar

Baldur og Bragi, botnvörpungar, eign Thorsteinssons. Einhver skipstjóri hans sem fiskað hafði á skútu ágætis þorskafla, kvaðst hafa fengið hann austur í „Pítarítisforum“ og sagði, að þær væru skammt fyrir austan Portland, en aðrir höfðu ekki þekkt þær til þessa. Þangað vildi Thorsteinsson drífa aðra skipstjóra sína og sagði, að þar væri þorskurinn.