Sálmur 58 | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Sálmur 58

Fyrsta ljóðlína:Þú, brúður Kristi kær
Viðm.ártal:≈ 1700
1.
Þú, brúður Kristi kær,
ó, kom, þín heill er nær.
Þig nálgast góður gestur,
þinn Guð og vinur bestur.
Hósanna, dýrð sé Drottni,
hans dýrðin aldrei þrotni.
2.
Frá inni út þér flýt
og elskhuga þinn lít.
Veit lávarð þínum lotning
með lofgjörð, Síons drottning.
Hósanna dýrð sé drottni,
hans dýrðin aldrei þrotni.
3.
Í hjarta hógværð býr,
hann hóglega’ að þér snýr
og gjafir helgar hefur,
er heitmey sinni’ hann gefur.
Hósanna, dýrð sé Drottni,
hans dýrðin aldrei þrotni.
4.
Dreif kvistum konungs leið,
þín klæði’ á veginn breið,
í höndum haf þú pálma,
syng hátíðlega sálma.
Hósanna, dýrð sé Drottni,
hans dýrðin aldrei þrotni.
5.
Hann líka láttu þá
þín lofa börnin smá.
Með helgum svari hljómi
öll hjörð Guðs einum rómi:
Hósanna, dýrð sé Drottni,
hans dýrðin aldrei þrotni.


Athugagreinar

Páll og Stefán eru þýðendur sálmsins, kom fyrst út í Grad. 1691 og er eftir ókunnan höfund danskan.