Svo fór um sjóferð þá | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Svo fór um sjóferð þá

Fyrsta ljóðlína:Ljóma bar á bláa dröfn
bls.1. árg. bls. 19
Viðm.ártal:≈ 1950
1.
Ljóma bar á bláa dröfn,
bjart um mar og dranga.
Mínu fari eg hélt úr höfn,
hugðist snar til fanga.
2.
Sigldi ég hátt í sólarátt.
Söng minn dátt ég þreytti.
Hug minn átti hafið blátt,
hitt ég fátt um skeytti.
3.
Gáskaör um opinn sæ
undi ég för í gleði,
gleymdi vör og bernskubæ.
Brann mér fjör í geði.
4.
Kanna vildi ég vona sjó
– vorið þyldi að bíða –
samt mér skildist, seinna þó
svipul mildin tíða.
5.
Hljóð varð raust hins reifa manns,
rifnuðu traustar voðir,
þegar haustsins darradans
dæmdi í naustir gnoðir.
6.
Auðnu þrotinn, uppgefinn
útþrá slotað lætur.
Ég hef brotið bátinn minn.
Bylgjan vota grætur.