Þankar | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Þankar

Fyrsta ljóðlína:Man ég frá æsku
bls.36
Viðm.ártal:≈ 1900
1.
Man ég frá æsku
minnar dögum
gleðjandi margt
sem giftu spáði.
Las ég blóm
litfögur.
Leikir snerust
um legg og gler.
2.
Bjó ég þar glaður
búi mínu
á grænum hól
við götu farna.
Óskaði ég þá
einskis framar
en mega una
ævitíð.
3.
Senn fer að síga
sól í æginn.
Úti er erfiði
ævidaga.
Geng ég hlakkandi
að grafardyrum,
gisti foldu
er ég fæddist af.