Minning um Norðurland | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Minning um Norðurland

Fyrsta ljóðlína:Birtist mér landssýn, björt í sólarloga
bls.266
Viðm.ártal:≈ 1925
1.
Birtist mér landssýn, björt í sólarloga,
brimþvegin ströndin, snækrýnd fjallabrún.
Sumarið breiðir faðm um vík og voga,
vel gróin engi, slegin heimatún,
standbjörgin traustu og dimmu gljúfrin gráu,
glymjandi fossa, heiðavötnin bláu.
2.
Smálækir kátir hoppa stall af stalli,
steypa sér niður græna fjallahlíð.
Laufskrýddir bakkar baðast úðafalli,
brosa í mónum dalablómin fríð.
Búsmalinn allur breiðir sig um haga,
bítur í ró um fagra sumardaga.
3.
Laufkrónur fléttar fagur birkiskógur,
hinn forni vörður þessa kalda lands.
Í faðmi hans er fundinn gróður nógur
og fegurðin stærsta birtist auga manns.
Smáfuglar skjól hans hættulaust sér hyggja,
hreiður sín glaðir ætla þeir að byggja.
4.
Þetta er Ísland, aldna fóstran kæra,
indælast landa, drottins listaverk,
sem börnum sínum blessun kýs að færa,
blíð vill þau hafa, glaðlynd, hraust og sterk.
Það eldinn geymir innst í sínu brjósti,
en elur jökulskalla á hæsta tind.
Okkur það heillar gæðum með og gjósti.
Glæsileg er þess sanna tignarmynd.
5.
Hér vil ég hvíla frjáls í fjallablænum,
finna er vættir landsins hefja dans.
Brimþungur niður berst til mín frá sænum,
blómálfar litlir gista vitund manns,
sálinni gæða á veig úr listalindum. –
Lífið er fagurt séð í draumamyndum.