Bernskuvonir | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra
1.
Áður var eg – eins og gengur –
ofurlítill smaladrengur.
Starfi þessi fannst mér fengur;
fjallaloftið – víðsýnið.
Margbreytt sá eg sjónarmið.
Blöstu þá við bernskuaugum
bláleit fjöll í geislabaugum,
en í fjarska úthafið.
2.
Sveitin stóð í sumarblóma
söngfuglanna greindi eg hljóma
og klettabeltin enduróma
allan þennan raddaklið.
Í hverri lautu lækjarnið.
Vötnin slétt með geislagárum,
grösin vætt af daggartárum.
Brekkur vöfðu blómskrúðið.
– – –
3.
Ríkur bóndi eg verða vildi.
Væna jörð eg bæta skyldi.
Með tímans kröfum heyja hildi
og heldri bænda fylla bekk.
Í ævintýrum oft svo gekk. –
Bæinn skyldi eg byggja nýjan,
burstaháan, sólskinshlýjan,
eftir fyrri alda smekk.
4.
Eiga skyldi eg ótal sauði,
engin vöntun mundi á brauði.
Síðan skyldi eg safna auði.
Svona birtist heimur nýr.
Enn er draumur æsku skýr.
Með fjörhestana fullvel alda
í ferðalögin skyldi eg halda,
þá fór um mig ylur hlýr.
5.
Eins eg þráði að yrkja og skrifa,
– yndislegt þá væri að lifa. –
Á hátind frægðar helst að klifa,
– eg hafði lesið oft um slíkt.
Helst var mér í huga ríkt
að syngja ljóð með svanahljómi
svo að þjóðarlofgerð ómi.
Og það var fleira þessu líkt.
6.
En svo leið hver áratugur;
eitthvað breyttist smalans hugur.
Forlögunum – fríviljugur –
fékk eg ekki þokað neitt.
Nú er heldur högum breytt.
– Landið samt með sömu myndum,
sem eg eygði af bernskutindum.
En ég hef aldrei orðið neitt.
7.
Enn þá bý eg upp til dala,
yrki jörð og kindum smala.
Þoli bæði súld og svala,
svellalög og geislabál.
– En vonir mínar voru tál.
Erfiðleikar að mér bárust,
útgjöldin við neglur skárust.
Oft er leið á ísum hál. –
8.
Endalaust eg er að strita
aðeins fyrir spón og bita.
Útgjöldin eg er að hnita,
að eg hafi daglegt brauð.
– Gengur seint að safna auð.
Vona að enginn til þess taki,
með tæp fimmtíu ár að baki.
En ekki er vonin alveg dauð.