Hrafna-Flóki | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Hrafna-Flóki

Fyrsta ljóðlína:Ein á hafsins óravegi
bls.78-81 og bls. 17 í Þjóðviljanum 12.10. 1990 Umfjöllun um Íslensk alþýðuskáld/Steinunn Eyjólfsdóttir
Viðm.ártal:≈ 1975
Ein á hafsins óravegi
utar hverri þekktri leið,
bundin valdi storms og strauma
stafnareist en borðlág skeið
vöskum fleytir flokki ýta.
Freyðir hrönnin mjallahvíta.
Birtast svið sem aldrei áður
augu mannleg fengu að líta.

Yst á heimsins endimörkum
eyjan bíður landnámsmanns,
bak við hafsjó hundrað rasta,
hulu sveipuð draumalands.
Út og norður stefnt er stafni,
stýrt í Þórs og Óðins nafni.
En til vara vegsögn þegin
vota leið, af fleygum hrafni.

Upp af hafsins bylgjum breiðum
bláfjöll rísa, jöklum krýnd.
Frjósöm jörð í fullum skrúða
farmanns þreyttu auga sýnd.
Dokar Flóki fyrir landi.
Fellur brim að gráum sandi.
Hugboð segir: Haltu vestur,
hér er knerri ólendandi.

Súgar brim á Suðurnesjum.
Sýn til norðurs opnast ljós.
Æsibyrinn beint af landi
bannar hröktum Faxaós.
Vindi nær til norðurfjalla,
nú skal beitt þó taki varla
þangað inn sem lofts í lindum
laugar nesið jökulskalla.

Út og norður nökkva dregur.
Niður fellur kylja stinn.
Svo í kátu sunnanleiði
siglt á fjörðinn breiða inn.
Hrakið lið með hrelldu geði
hressir aftur von og gleði.
Sigur þess í seiling bíður
sem þar lagði allt að veði.

Mundi fleirum finnast líka
fundin vera óskajörð
sem í hægum sólfarsvindi
sigldi fyrst inn Breiðafjörð.
Meðan knörr í leiði líður
logar víkings hugur stríður.
Flóki veit að fyrir stafni
fyrirheitna landið bíður.
––
Um sumardag við fjallafaðm,
á fjarðarströnd, við græna hlíð
og skógardalsins veiðivatn,
á velli grænum skálasmíð,
hve örskjótt stundin framhjá fer
þeim frjálsa hóp sem kominn er.

Hér birtist lífsins unun öll
um ey og strönd, um fjörð og dal.
Af fiski sjórinn fullur er,
af fuglagrúa, sel og hval.
Af berjum sortnar hvammur hver,
af hverju strái drýpur smér.

Að hugsa fátt um heyjaskort
á harðri tíð er vandalaust
við slíka allsnægt, sleppum því.
Það slampast allt, þó komi haust
og vetrarógn með kröm og kal
– það kemur aftur vor í dal.
––
Við sögu Flóka undrumst enn.
Þau örlög sýnast grimm og hörö
að sigra fyrst, en flýja burt
að felldri sinni litlu hjörð.
– Þó getur hent hvern góðan dreng
að glata sínum besta feng.

En eftir stendur arfur hans,
sem enginn mölur granda kann,
og geymist meðan heimsbyggð helst,
það helga nafn sem valdi hann.
– Og þó er hálfgerð þögn í kring
um þennan fyrsta Barðstrending.

Hann aðkast fékk: Hann flýði brott!
Hann felldi úr hor og níddi land.
Hann skildi eftir auðan bœ.
Hans áform háleitt rann i sand.
– En hægan bræður — hinkrum við
það hafa fleiri þennan sið.

Við höfum lika leitað burt,
um land og sögu engan spurt.