Vor um Vatnsnes | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vor um Vatnsnes

Fyrsta ljóðlína:Hlýjar öldur Vatnsnes vefja
bls.234-5
Viðm.ártal:≈ 1950
Flokkur:Náttúruljóð
1.
Hlýjar öldur Vatnsnes vefja,
vorið fyllir Húnafjörð.
Tærir lækir státnir stefja,
steypast niður fjallaskörð.
Upp við ljósan himin hefja,
heiðir tindar gróna jörð.
2.
Yfir byggð um landsins lendur
líður vængjaþaninn örn,
hvítir svanir rista rendur,
renna hljóðlaust breiða tjörn.
Og við lygnar, ljúfar strendur
leika fögur selabörn.
3.
Þegar sólin sest að viði
sveipast landið roðablæ.
Heyra má í kvöldsins kliði
kvaka fugla út við sæ.
– Þegar nóttin fyllist friði,
fólkið lokar hljóðum bæ.
4.
Ljúfsæt angan ungra trefja,
ylur græðir sviðin börð.
Iðnir bændur hugann hefja,
herfið ristir þíða jörð.
Hlýjar öldur Vatnsnes vefja,
vorið fyllir Húnafjörð.