Vísur | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Vísur

Fyrsta ljóðlína:Hlákuský um himinhvel
bls.111 í ´27. árg. 1987
Viðm.ártal:≈ 0
Tímasetning:1950
1.
Hlákuský um himinhvel
hingað drýgja sporin.
Og að nýju orna vel
æsku-hlýju vorin.
2.
Þá við barni brosti sól
bræddi hjarn og klaka.
Mjög þó harðni um munaskjól
minningarnar vaka.
3.
Man ég lænu glaða á grund
gesti hæna smáa
þá er vænan þeysa´ á fund
þustu úr bænum lága.
4.
Var ei skeytt um votan sokk
vilja neytt og handa
kubbum fleytt í krapastokk
kænum beitt til stranda.
5.
Gauks við hnegg í grænum reit
gættu „seggir" búa
hlóðu veggi, völdu beit
völu og leggja grúa.
6.
Æskan fann að ýms var þörf
ábyrgð vann það kveikja.
Saman rann við stærri störf
stjá og annir leikja.
7.
Hvarf svo „þykjast" hjörðin stór
hinni vikið greiðar
fríður, kvikur fenginn jór
fyrir prik, til reiðar.
8.
Og sem máttur efldist þar
að öðrum háttum snúinn
ljóst var brátt að lífsins var
leikjaþáttur búinn.
9.
Skeiðið þreytum áfram enn
ýmsar leitir farnar
taka og veita víst í senn
vilja breytingarnar.