Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Flokkar

Allt  (725)
Ástarljóð  (8)
Biblíuljóð  (3)
Eftirmæli  (11)
Gamankvæði  (12)
Háðkvæði  (5)
Heilræði  (1)
Hindisvík  (2)
Húnaþing  (7)
Húnvetningar  (6)
Jóðmæli  (1)
Jólaljóð  (2)
Kappakvæði  (1)
Lífsspeki  (2)
Ljóðabréf  (6)
Náttúruljóð  (47)
Rímur  (1)
Sagnakvæði  (1)
Sálmar  (2)
Skáldsþankar  (30)
Strandir  (2)
Söguljóð  (10)
Tíðavísur  (1)
Tregaljóð  (2)
Þululjóð  (1)
Ævikvæði  (2)

Í hákarlalegum

Fyrsta ljóðlína:Í skaparans nafni ýtt var út
Heimild:Íslensk lestrarbók bls.316-319
Viðm.ártal:≈ 1900
Flokkur:Söguljóð
1.
Í skaparans nafni ýtt var út
opnu skipi, er leyst var festi.
Með Andrarímnur í andans nesti,
en annars harðfisk og blöndukút;
en munaðaraukinn eini og besti
ögn af sykri í vasaklút.
2.
Skipverjar allir áttu þar
einhvern skyldleikasvip í framan,
útigangsjálkar allir saman,
um það hörundið vottinn bar.
Þar var annað er glóðvolgt gaman
að gera sér mjög um þvotta far.
3.
Öruggt var þeirra áralag,
engum skeikaði vissa takið;
stæltur var armur, breitt var bakið,
og brjóstið harðnað við stormsins slag.
Seigluna gátu´ og vaskleik vakið
vetrarins armlög nótt og dag.
4.
Jafnan var dembt á dýpstu mið,
– dregnar inn árar, lagst við stjóra.
Nútíð mun fyrir naumast óra,
hvað napurt var þar að leggjast við.
Og þolinmæðina sterka´ og stóra
stundum þurfti´ í þá veiðibið.
5.
Því hann hafði jafnan, hákarlinn,
hugleitt það vel og rökum metið,
hvort ginnandi hráa hrossaketið
hollt mundi fyrir skoltinn sinn.
En aldrei gat hann þó á sér setið, –
og upp var hann boðinn velkominn.
6.
Og þar voru fyrir fálmlaus tök:
Færar hendur með brýnda hnífa
knálega tóku að krytja og stýfa,
því kák við hákarla er dauðasök,
– skoltarnir á þeim hvergi hlífa
höndum, sem eiga við þá mök.
7.
Dvölin var köld og þurrlega þar,
þarna var allt að viku setið,
mikið stritað, en minna étið,
en minnstur þó jafnan svefninn var,
því eins og þú nærri getur getið,
gustaði þar um rekkjurnar.
8.
Kaldari hef eg hvergi frétt
kafalds heldimmar vetrarnætur.
Stormar ískruðu og Ægis dætur
öðru hverju þeim sendu skvett.
Þær höfðu á því mestar mætur
í myrkrinu að taka þangað sprett.
9.
En hvernig sem gekk sú glíma við
grályndar bylgjur, storm og fleira,
þar skyldi enginn æðru heyra
eða kvörtun um svefnleysið. –
Það flaut ósvikinn dropi af dreyra
dáðrakkra feðra um þessi mið.
10.
Loks, þegar rauk og reiddist sjór,
– risu við borðin hrannir stríðar,
steðjuðu að norðan hörkuhríðar,
þá hentaði ei neinum dorg og slór.
Oft mátti þá ei sigla síðar,
svo var hinn krappi vegur mjór.
11.
Stirð voru enn þá Ægis hót,
áður en lyki sjóferðinni:
Kaffærðum loks í lendingunni
lamdi þeim brim við fjörugrjót,
– gaf þeim til menja skeinu á skinni,
skrámu á vanga eða bláan fót.
12.
En eins og þeim kæmi ekkert við
Ægis spark eða stormsins lævi,
einhuga, nær sem aftur gæfi,
ætluðu þeir á sömu mið.
Þetta var þeirra iðju og ævi
óumbreytanlegt lögmálið.
13.
Kunnið þið við að kalla „svín“
kappana, er lentu í svona þófi,
þótt þeir um kvöldið kysstu í hófi
kvenfólk og drykkju brennivín,
þegar úr brims og kafaldskófi
komu þeir snöggvast heim til sín?
14.
Fátækt höfðu þeir vaknað við,
er vissu þeir fyrst af þessu lífi,
og örbirgð í ströngu striti og „kífi“
stóð þeim flestöllum trútt við hlið.
Keimlíkust voru kargaþýfi
kjör þeirra margra og ævisvið.
15.
En þarna var ófalskt íslenskt blóð
orka í geði´ og seigar taugar.
Hörkufrostin og hrannalaugar
hömruðu í skapið dýran móð. –
Orpnir vóru þeim engir haugar,
en yfir þeim logar hróðarglóð.