Í Tjarnarskarði | Húnaflói – kvæða- og vísnasafn
Húnaflói – kvæða- og vísnasafn

Innskráning ritstjóra

Í Tjarnarskarði

Fyrsta ljóðlína:Sefgrænir bakkar, silfurgáruð tjörn
bls.243-244
Viðm.ártal:≈ 1925
1.
Sefgrænir bakkar, silfurgáruð tjörn,
sundfuglakvak og mosabrúnar skriður.
Valllendisgrundir, steinbyrgi og börn.
Búsmali í hlíðum, foss og lækjaniður.
2.
Bergmál í hömrum, burnirót á snös.
Burkni í skúta undir Háuklettum.
Brúða og Surtla sækja í efstu grös.
Sandurinn rýkur undan fótum nettum.
3.
Fögur er hlíðin, friðsælt Tjarnarskarð.
Flögra í lyngi glaðar ungamæður.
Ásthrifum vorsins angar laut og barð.
Æskan á næsta leik og hjartað ræður.
4.
Sólvermdur blærinn blómahörpur sló.
Brumhnappar litlir sprungu fyrr en varði.
Fífillinn kyssti fjólu í Steinamó
fermingarvorið uppi í Tjarnarskarði.