Sjómannadagsljóð 1950 | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Sjómannadagsljóð 1950

Fyrsta ljóðlína:Á þessum mikla merkisdegi
Viðm.ártal:≈ 1950
Tímasetning:1950
Á þessum mikla merkisdegi
hins mæta og djarfa fiskimanns
haldi vernd á láði og legi
líknar armur skaparans.
Heill sé ykkur hetjur dagsins
er haldið út á kalda dröfn.
Sífellt faðir sólarlagsins
sigli ykkar fari í höfn.

Þó syrti í ál og boði brotni
bilar ekki sjómannslund.
Allir treysta einum Drottni
yfir vota sævar grund.
Þeir sem heima verkin vinna
vita ei hót um sjómanns kjör,
en vona að farið þitt og þinna
það sé komið heilt í vör.

Farmaður sem ferð um sæinn
farsæll studdur Drottins hönd,
færir góða gjöf í bæinn
og gjaldeyri við önnur lönd.
Allir þeir er sjóinn sækja
sómi reynast þeirri stétt.
Standa saman, störf sín rækja
stefna að marki er hátt er sett.

Heillar hafið bjarta og blíða
bræður okkar fagra lands
ætíð glaðir, engu kvíða
allir komast þar til manns.
Farkosturinn fegri og betri
og fullhugar sem lifa enn.
Því mun skráður logaletri
lofstír ykkar hraustu menn.

Ykkar merki ei skal falla
alda meðan kyssir sand.
Blessi Drottinn ykkur alla
afli glæðist hér við land.
Veg þinn lýsi vættir góðar,
þá veltur boði yfir sker.
Lifi hetja lands og þjóðar
lán og gifta fylgi þér.