Gullneminn | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Gullneminn

Fyrsta ljóðlína:Ennþá hefir Einar steypt
bls.127-128
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1915-1922
Flokkur:Skáldsþankar

Skýringar

Úr syrpunni Menn og minni 1915-1922
Ennþá hefir Einar steypt
óð úr málmi sagna:
Kórmákssögu gulli greypt
goðkynjaðra magna.
Engir höggva úr hömrum þeim
höfgari auð í ljóðum.
Hamarinn knúinn knefum tveim
klýfur að dýpstu sjóðum.

Egils djúpu og dulu sál
dró hann í stuðla sína.
Kórmáks æfi og ástarbál
aftur lætur skína.
Var sem Egils líf og ljóð
litum við fegra og stærra
og Írans djúpa elskuglóð
eldana teygði hærra.

Einar lyftir ljóðaheim í
lífi þeirra öllu,
sem að æfiskin og ský
skrýddu ljóði snjöllu.
Þó á milli þrymji sær
þúsund dökkra ára,
þeir eru eins hans anda nær
eins og dagsins bára.

- Sæki hann enn í sagnabrunn
söng í strengi skæra,
láti hann þaðan ljóðaunn
listarauð oss færa.
Þar fær gígjan, þróttug, snjöll,
þyngd og dýpt í hljóminn.
Um sagnadjúpsins fossaföll
flytur hún hæsta óminn.