Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Við legstað

Fyrsta ljóðlína:Eg stend hér við leiði hins ljóselska manns
Heimild:Sóldægur - ljóð bls.141-142
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1915-1922

Skýringar

Úr syrpunni Menn og minni 1915-1922...
Eg stend hér við leiði hins ljóselska manns.
- Langt út í geimnum stíga dans
norðljósabylgjur á bláum vegum -
bjartar eins og sálin hans,
sem duft sitt á hér undir bleikum breiðum
af bliknuðu grasi síns ættarlands.

- Jörðin var auðug að eiga hann,
þennan æskufagra, glaða mann,
sem átti engan skugga á sálu sinni
og söng út í loftið allt gott, sem hann fann
og átti í heitu hjartanu inni
hátíðarljós, sem alltaf brann.
__________

Eg hvílist hér við lágan legstað þinn.
- Þú lést mig horfa í sálu þína inn
og sjá þar geisla af guði sjálfum skína,
er gliti varp á hverja athöfn þína.
__________

Eg gæti elskað þessa mjúku mold,
sem mátti faðma að sér bein og hold
þess manns, sem eg hef ennþá fundið bestan
og átti gleði, samúð, drengskap mestan.
__________

Það er sem bjarmi upp af leiði hans
og einhvern ljóma beri visinn krans.
Og ótal stjörnur út í geimnum bláa
úr eilífð sendi birtu á kumlið lága.