Endurfundir | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Endurfundir

Fyrsta ljóðlína:Í fyrsta sinni, er sá eg þig
bls.145-147
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1915-1922
Flokkur:Skáldsþankar

Skýringar

Úr syrpunni Menn og minni 1915-1922
Í fyrsta sinni, er sá eg þig,
var sál þín ör og létt og heit.
Þín augu og viðmót vermdu mig:
þú varst úr ljóss og gróðursveit.
Eg heyrði, að sál þín söngur var,
er sjálfum guði lofgjörð bar.
En einhver skuggi skalf á brá,
og skyggði á þína hjartans þrá.
_________________

Við mættumst næst eitt mánakvöld,
en mæltum fátt þá dýrðarstund.
Þú hélst mér þöglum - hafðir völd.
Eg hlúði að þinni silkimund.
Eg sá þú tamdir sjálfa þig.
Eg sá þú vildir faðma mig.
En þú varst sterk og stóðst þá raun.
- Þó stal eg kossi í fylgdarlaun.
_______________

Nú hefi eg séð í sál þér inn.
- Þar svellur þungt og órótt haf.
Það heiðir sjaldan himin þinn.
Það hrímga öll blóm, er líf þér gaf.
- Í sálu þinni er stormur, stríð
og stjórnlaus þráin, ár og síð,
að geysast út í glaumsins foss,
að gefa og þiggja lífsins hnoss.

Eg hefi séð þig bera á bál
það besta, sem þú áttir til.
Af harmi skalf þín særða sál.
Þá sástu hvergi vegaskil.
En næstu stundu hlóstu hátt
og hjartanlega æskudátt
og gafst þá öllum gleðisjóð
og glaum og söng og vorsins ljóð. -

- Þú elskar, þráir, hatar heitt.
Þú hlærð, þó spor þín sýni blóð.
Þér ástúð, göfgi og grimd er veitt.
Þú gætir drepið heila þjóð.
En einnig grætt öll svöðusár
og sefað harm og þerrað tár
og verið heimi ljóssins lind
og laugað mann af allri synd.

Eg undrast títt og að því spyr:
Því áttir þú ei ríki og lönd?
Því varstu ekki uppi áður fyrr,
er allir báru vopn í hönd?
Þá gastu ráðið miljón manns
og myndað örlög fólks og lands
og bálin kveikt og bölvun stráð
og blessun ríkri niður sáð.
_________________

En heita, djúpa, djarfa sál!
Eg dýrka og tilbið máttinn þinn.
Eg vildi eg ætti öll þín bál,
þá yrði stærri hlutur minn.
En smásálirnar smána þig
og smeygja snörum á þinn stig.
En þó þú fallir fjötur í,
þú flýgur sterk og glöð á ný.