Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Svarfaðardalur

Fyrsta ljóðlína:Svarfaðardalur kæri ég kveðju sendi þér.
Heimild:Dagur 1937
Viðm.ártal:≈ 1950
Tímasetning:1937

Skýringar

Hjalti yrkir þetta um tvítugsaldur, þegar hann er veikur af berklum á Kristnesi og heldur að hann eigi ekki afturkvæmt í dalinn. En hann náði svo óvænt heilsu eftir velheppnaða aðgerð!
Svarfaðardalur kæri ég kveðju sendi þér.
Til kunningja og vina allra heima.
Og aftan svalinn blíður flytur bestu ósk frá mér,
að blessun megi ávallt til þín streyma.

Og ef ég væri fleygur ég flygi heim til þín.
Í fjallaskjólið, gróðurinn og kliðinn.
Að hvíla þér við hjarta er heitust óskin mín
og hljóta þannig lengi þráðan friðinn.

Er milda og hlýja vorgolan um vanga mína fer,
mín vöknar brá og tárin niður streyma
en huggast við að einhverntíma auðnist aftur mér,
á eigin fótum standa í dalnum heima.

Er sólin gyllir skautið þitt, fagra fósturjörð,
ég fyllist djúpri þrá að líta dalinn.
Við sára löngun berst ég, sú barátta er hörð,
ég er bundinn fast, en hugur minn er kvalinn.

Þótt einmana ég reiki um heimsins hála stig,
þótt hárið gráni og andinn verði svalur.
Í gegnum allar raunir ég elska einan þig,
um alla tíma kæri Svarfaðardalur.

En af því að ég ann þér svo undarlega heitt,
ég ætla margt til heiðurs þér að vinna.
En verst er að kraftar mínir vega ekki neitt
á vogarskálum Svarfdælinga minna.