Lyft vorum anda | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Lyft vorum anda

Fyrsta ljóðlína:Lyft vorum anda, alheimssál
bls.115 - 116
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1918-1921
Flokkur:Lífsspeki

Skýringar

Úr syrpunni „ Heima “ 1918-1921
Lyft vorum anda, alheimssál,
upp til þín, upp til þín hærra!
Ger hugsvið vort hreinna og stærra.
Lyft vorum anda - og lát hann fá
leiðarstein um veraldarsjá.
Fyll vorar sálir sóldýrð þinni,
syng oss þitt eilífa kærleiksmál.
Ger þoku og skugga mannlífsins minni.

Lyft vorum þroska og lát hann sjá
að lífið er brautin, sem stefnir
í eilífðarríkin himinhá.
Heyr vorar þrár, sem kalla þig á.
Kný fram til göfgi og kærleiksdýptar
þá kynslóð, sem misgerða hefnir.
Lát skínandi varðelda visku þinnar
vegina lýsa í rétta átt.
Ger heiminn fullan af friði og sátt.

Lyft vorum krafti, lífsvakans haf,
í ljóssókn komandi tíða,
svo veröldin rísi rústum af,
og renni dagur með geislastaf
til þeirra, sem birtunnar bíða.
Blessa þú mögnin, sem ljóssins leita.
Leið þá, sem ennþá förlast sýn
og þrá, en vita ekki um veg til þín.