Fiskiróður | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Fiskiróður

Fyrsta ljóðlína:Þeir ýta úr vör
bls.45-50
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1922

Skýringar

Höfundur stundaði sjómennsku frá unga aldri og lýsir hér afdrifaríkri sjóferð....
Þeir ýta úr vör.
- Það er útsunnanvindur,
næðinganótt
og norðljósasindur.

Siglan er reist. -
Nú sýður á keipum,
titrar hver súð
og tognar úr reipum.

Hafnar-Björn heldur
um hjálmunvöl.
Að skautinu gætir
Gunnar á Möl.

Sigla þeir mikinn
en mæla fátt.
- Löngum er byljótt
landsunnanátt.

*
Runninn er dagur
og rennt á mið.
- Svifta þeir niður seglinu
og setjast færið við.

Útsunnankaldinn
er orðinn að logni.
Sólgeislabjarminn
blikar á sogni.

- Nú bítur hann, piltar
kvað Bergur og dró.
Brostu þeir í kampana
en Björn - hann hló.

Djúpmiðaþorskinn
draga þeir í gríð.
Víðir er ríkur
og veröldin fríð.

*
En haustveðrið er hverfult.
Á Kaldbakstindi er ský
og náttsvartur bakki
rís norðrinu í.

- Sitja þeir við færin
í sjómannsró.
Gull sitt þeir eiga
í grænum sjó.

En Hafnar-Björn lítur
til hafsins oft.
- Bakkinn dimmur breiðist
um hið bláa loft.

*
Rokinn er hann á
í öskrandi hríð.
- Guð hjálpi þeim, er sigla nú
um sædjúpin víð.

Hátt lætur stormur,
en hærra bylgjan þó.
Boðaföllin byltast
um blindskerjasjó.

Í holskeflu brotum
fer bátur til lands.
- Stígur hann í voðanum
vikivakadans.

Lækkið þið seglin!
Við siglum hann í kaf!
- Nú er vitlaust veður
og vonskulegt haf.

- Heim hvarfla hugir.
Þar hýrast börn og víf.
- Gefðu okkur þeirra vegna
guð minn ennþá líf! -

Skellur yfir farið
fnæsandi hrönn,
köld eins og jökull
og hvít eins og fönn.

Þóptufullur báturinn
úr boðanum skýst, -
- þyrmdu ´onum, þyrmdu ´onum,
þegar þú aftur ríst.

- Sitja þeir hljóðir.
Séð hafa þeir áður,
hve ægir er máttgur
og mikilráður.

Kaldir að utan
með eld í sál,
sigla þeir í blindhríð
um brimskerjaál.

*
Komið er að landi.
- En hver vill sigla í naust?
Það er sem hafgnýrinn
hafi feigðarraust.

Svarrar á björgum
brimfalda mergð.
Að hleypa upp í landsteina
er lífshættuferð. -

- Strengir Björn um herðar
stjórntaumana báða.
Konungur himnanna
hann skal nú ráða!

Á báðar hliðar blindsker
og brim fyrir stafni.
Höldum samt upp
í herrans nafni!

- Holskeflur falla
og hrifsa far,
kippa því á vetfangi
á kaf í mar.

Skýtur upp kyli,
kinnung og ár.
- Flýtur einn í öldunum
ískaldur nár.

Skolast hinir
með skipi á land. -
Öldurnar falla
og freyða við sand.

Glymur um ströndina
stórsjóa hlátur.
Kallar í himininn
konunnar grátur.