Hallgrímur Kráksson póstur | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Hallgrímur Kráksson póstur

Fyrsta ljóðlína:Gnauðar á þekjum gustur Norðra.
bls.133-134 bindi 2
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1929

Skýringar

Hallgrímur Kráksson „ konunglegur þénustumaður“ var póstur í 30 ár (1882-1912) frá Akureyri til Siglufjarðar og þótti sinna því af stakri trúmennsku, þrautseigju og harðfylgi, en það var ekki heiglum hent í vetrarstórhríðum og fannfergi. Grímur þótti skýr maður og skemmtilegur og vinsæll hvar sem hann kom.
Gnauðar á þekjum gustur Norðra.
Gaddur hvílir yfir jörð.
Þeysibylur æðir yfir
Íslands þröngu fjallaskörð.
Hríðarnótt í hrömmum kreistir
hauðið fennt og bóndans rann.
Vetur grimmur ræður ríkjum.
Reynir nokkur afl við hann?

Einn sem vanur kólgukófi
kafar snjó um lendur fjalls.
Einn með þunga á þreyttu baki,
þó hann riði ei til falls -
pósturinn, sem berst við bylinn,
brekkuvanur, myrkurrór.
Einn á ferð á öræfunum,
einn, þó freyði mjallar sjór.

Hann er ekki hár í lofti,
hefir brautargengi smátt.
Styðst við gögnin, staf og skíði,
stefnuvissu og drottins mátt.
En viljans eldur vakir heitur.
Vörður sökkvi, hverfi mið,
slöngvi éljum stórhríð bitur,
- stefnt skal samt á bæjarhlið.

Vættarþungann ber á baki,
bréf með gleði, skjal með sorg,
fyrirbænir fjarra vina,
fréttasjóð úr dal og borg.
Gljúfravegi glórulausa
gengur póstur næturskeið.
Rór í skapi, skrefafastur,
skyggnist fram um hættuleið.

- Guðað er á glugga á bænum.
- Grenjar úti sorthríð.
- Leyst er taska úr klakakápu,
kynt upp glóð af bæjalýð.
„ Var hann ekki efra svartur? “
einhver spyr þá ferðahal.
„ Ó-jú, stundum steypti ´ann gusum,
og stormur var á Grímudal.„

Hann er ekki hár í lofti,
hóf þó merki hreystimanns.
Hræddist ekki hríðarsorta,
hrikavegi fjallalands.
Oftast lagði hann einn á brekku,
öræfanna þekkti mál.
Kuldasönginn, klettasúginn,
klakadrunur - fjallsins sál.