Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Formannavísur 1845

Fyrsta ljóðlína:Hann Gísli á Hamri
Viðm.ártal:≈ 1850
Tímasetning:1845
Flokkur:Formannavísur

Skýringar

Formannavísur ortar 1845 er greina frá svarfdælskum skipstjórnarmönnum á þeim tíma.
Hann Gísli á Hamri
hefi ég að því gáð,
þó glýjan glamri
svo gæti afla náð,
rastar hesti rennir
reyðar heiði á
næsta fast því nennir
að neyða skeið um sjá.
Yst við tengur afla fær,
upp þá gengur ránar mær,
listadrengur landi nær
Lágarbúðum hjá.

Þar næst Þorlák nefni
þæga meður lund
fiskiformannsefni
fram á dvelur Grund.
Sækir sjó um tíma
sem honum þykir hent,
kvistur kólgu bríma
kænn við aflamennt.
Þó eldahlýri efli hnauk
á upsamýri, svo hún rauk
sínum stýrir súðahauk
svo vel fái lent.

Hallgrímur heitir,
halur um eyjaband,
flóðsvagni fleytir,
fæst við aflastand.
Heppnismaður hægur,
heilnæm þiggur ráð,
í sjóferðir frægur,
fylgi með og dáð.
Sig þó yggli hefring há,
hann upp siglu vindur rá.
Stýrir hrygglu föllum frá,
fær svo landi náð.

Út frá Ingvörum
ufsa vítt um frón,
rennir oft rörum
ranga fílum Jón.
Hann það hvörgi hræðir
þó hríni ránar mær,
mastra hestinn mæðir
og mikinn afla fær.
Þó Skrímnir herði skafla mátt
og skammti ferð ei hafla smátt
ekki verður aflafátt,
ef til hendi nær.

Guðmundur á græði
gnapi hleypir ör,
síst er hann á svæði
seinastur úr vör.
Lætur ránar rakka
reyðar skeiða göng.
Hafs ei hræðist bakka
og hremmir aflaföng.
Þó efli Kári eyjaband
og orgi báran hátt við land,
drösull ára inn á Sand
öngva reynir þröng.

Enn er einn hans hlýri
að nafni Halldór
mjaldurs út um mýri
mastra fleytir jór.
Dyggur, gætinn, drjúgur
dável afla fær,
þó orgi öldusúgur
undan lítið slær.
Eins þó mási bróðir báls,
bogni ás, en svigni háls,
lætur rása elginn áls,
undir land svo nær.


Hrappsstaða-Hallur
hefur að gjöra nóg,
snarpur og snjallur
sneiðir breiðan sjó,
oft á undan öðrum
á ýsu þeysir grund,
að flóðadrekafjörðum
á fleyi sveigir mund.
Happ þá fengið hefur sá,
herðir strengi landi að ná,
lyngbaks engja lungi frá
litla dvelur stund.

Jón, Einars arfa
enn ég telja má,
keips ýtir karfa
keiluvöllinn á,
reynir hestinn ranga
og rær í einum fleng,
fús til aflafanga
fær því röskvan dreng.
Þó sig yggli þrumureim
og þokumyglan feli geim,
hlaðinn siglir hann oft heim
og hrósar drjúgum feng.

Hér næst Halldór nefni
heppinn aflamann,
býr við bestu efni
á Böggvisstöðum hann.
Lætur fleyið fljóta
fiskimiðin á
þó hann sjái þjóta
þursaskeggin grá.
Öngvu kvíðir sá til sanns,
segl upp hýfir utan stans,
bylgjur sníðir bússan hans
bæði til og frá.

Björn á Upsum beinir
bárulung um flóð,
röskva burði reynir
og rær í jötunmóð.
Við nesið nemur Sauða
og nokkuð stundum fjær.
Áls úr kílnum auða
ýsu og þorski nær.
Hátt þó belji boðaföll
og blandið selju hylji fjöll,
löndin skelja skjálfi öll,
skelkan öngva fær.

Halldór Einars arfi
afla sækir tíð,
ára skeiðar skarfi
skeljungs út um hlíð.
Röskmannlega rær hann
af ráði brýnir hug,
fisk því mikinn fær hann
fyrir kapp og dug.
Þó aldan hrindi bátnum blá
og blási vindur hátt sem má,
seglið bindur ríkt við rá
og rekknum beinir flug.

Nú á nesi Sauða
nefna verður Jón,
hann með hug óblauða
hýðir áraljón.
Út á ýsutanga
afla sækir bráð,
rakkann fyllir ranga
þó rjúki síldarláð.
Þó vind í kveini voðin frí
virðar reyni stoð af því
stjórn hann beinir boðum í
bestu meður dáð.

Friðleifur um flóa
ferðast þegar má,
bendir borða kjóa
Brekkunaustum frá,
lætur refinn ranga
rölta hafs um slóð.
Fiskinn líka fangar
þó flissi drafnar jóð.
Áls á srindi byrjar blað,
borða hrindir upp á Glað,
lætur synda landi að,
þá linar vinda hnjóð.

Jón á Hóli hraður
á hnísuvöllinn fer
mesti aflamaður
má hann teljast hér.
Kólgujór með keppni
um kembings engi rær.
Sjaldan hjá fer heppni
og hleðslu marga fær.
Þó aldan freyði um borðin breið
og brúsi reiður hvási um leið,
stýrir skeið um höfrungs heið
Hóls ei búðum fjær.

Jón yngri ekki
eftir situr rór,
það til hans eg þekki
þenur öldujór.
Hafs um bólið breiða
best af lyst hann rær,
venur sig til veiða
og vænstu heppni fær.
Þó aldan springi allt um kring
og eyja syngi hátt í hring,
beitir slyngur Borðrenning
og bestu lending nær.

Held ég minnast megi
manns er heitir Páll,
hann um höfrungsvegi
hugaður, forsjáll.
Skipið lætur skeiða
skjótt um hafið blá,
þó að rymji í reiða
rosaköstin há.
Hleður fley um rostungsreit,
þó ránar mey sé brjóstafeit,
skafta beygir vel sá veit
að venda henni frá.