Bæjarvísur 1930 | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Bæjarvísur 1930

Fyrsta ljóðlína:Situr á Hálsi siðugur
Viðm.ártal:≈ 1825
Tímasetning:1830
Flokkur:Bæjavísur

Skýringar

Árið 1830 kvað Jón á Karlsá bæjavísur um bændur í Svarfaðardal, 89 að tölu að viðbættum tveimur lokavísum. Hafa birst í jólablaði Norðurslóðar 1987.
Finnast einnig í bændatali í bókinni Svarfdælingar, þar sem þær eiga við hverju sinni.
Af kveðskap Jóns hafa bæjavísurnar lifað lengst á vörum Svarfdælinga, einkum þær liðlegustu og hnyttnustu.
Vallasókn

Situr á Hálsi siðugur
sveitarbyrjun vorri,
léttsinnaður liðugur
laufbrjótur Snorri.

Hrísum byggir hringaver
hreppsstjórinn allfrægur.
Sigurður heitir seimagrer
síglaður og þægur.

Upp að Hamri eg þá fer
ýta mærðar stefi.
Þægðarmaður Þorsteinn er,
þó hann lítið gefi.

Hamarkoti halur býr,
hann er engin kreima.
Jónas heitir járntýr
jafnan situr heima .

Örvabrjótur aldraður
er á læknum Skálda,
gildur bóndi Gunnlaugur
gjörir frá sér njálda.

Sökku býr hún Sigurlaug,
sú er í ekkjustandi.
Orðstír bezti af henni flaug
áður í hjónabandi.

Hánefsstöðum önnur er,
ástand líkt er svanna.
Elíná sú heitir hér
hranna geisla nanna.

Ölduhryggnum er gamall
auðarlundur skrítinn.
Þorgeir heitir þessi karl
þykir nokkuð ýtinn.

Efnalítill er hann Jón,
Uppsali þó vinni.
Kætist hann um kærleiksfrón,
ef kemst frá landskuldinni.

Völlum býr og vel um sér
vafinn bezta rómi,
séra Stefán afbragð er,
einnig prestablómi.

Jón í Brautarhóli hér
Halldórs gott afsprengi.
Hann í bónda efni er,
ef hann býr þar lengi.

Í Gröfinni býr hann gamli Jón
gjörir ei búi skaða.
Endilangt um Ísafrón
einatt gjörir vaða.

Hofi býr og heldur vörn,
hrósar dýrum auði.
Málmastýrir bóndinn Björn
bæði á kýr og sauði.

Bröndungsklæða buðlungur,
búskaps vanur starfi.
Hofsá ræður Rögnvaldur,
rausnarmaðurinn þarfi.

Skeggsstöðum ég kenna kann
karlinn Jón þar búa.
Samheldinn og sjóndapran
sízt á gott til hjúa.

Jón í koti Hofsár hér
hann er snar á fæti.
Rekur saman, rífur og ber,
rakar, slær og tætir.

Á Skriðukoti er skrítið bú,
skýri ég frá í bögu.
Sölvi býr og Sigfús nú
saman í einni þvögu.

Ytra-Hvarfi er hann Jón
efnamaður valinn.
Mörgum gefur mola og spón,
með þeim skárri talinn.

Syðra-Hvarfi situr frí
Sigurður og lengi var.
Meðan blakt augum í
hann er og hefur verið þar.

Hinumegin Halldór minn
hefur bús að gæta.
alvanur við armóð sinn
úr honum trautt má bæta.

Hjaltastöðum heitir Páll
hrungnisorða gætir,
ungur bóndi og forsjáll
ábatanum sætir.

Oft er sagt hann Oddur sé
efnalega náinn.
Sífellt þó í Sælunni
hann situr lífs og dáinn.

Jón á Hnjúki heldur bú,
horskur bóndi talinn.
Ágætasta ómafrú
undir hann er valin.

Jón á Blængshól bugar hryggð,
bændum með þó talinn.
Innan skamms fær æðri byggð
upp við himnasalinn.

Í Blænghólskoti býr hann Jón
bjargarlaus að kalla.
Hleypur eins og hungrað ljón
hann um bæi alla.

Í Holárkoti hnífgrér
heitir bóndinn Pétur.
Á hrossaketi hjálpar sér
hverjum manni betur.

Ólafur í flokknum fremst
fram í Gljúfrárkoti.
Eftir vonum áfram kemst
oft í kúaþroti.

Síðan kemur Sveinstaður,
sauðir þangað snúa.
Gjafalítill Guðmundur
gjörir þar að búa.

Þá kemur hann Þorgeir minn
þar í bænda línu.
Krosshól byggir karlfuglinn
og kemur áfram sínu.

Ásmundur í Hverhól kann
kúra lífs um tíðir.
Lítið er að lesa um hann
lifir og deyr um síðir.

Storðar lunda stjörnutýr
stilltur, fylltur sóma.
Kóngs á stöðum Stefán býr,
stundar lyndið fróma.

Urðarsókn

Á Þverá hefur lengi lúrt
larður bús af starfi.
Þar hefur liðið sætt og súrt
Sigurður Hallgríms arfi.

Más á syðri mjög forsjáll,
minn svo greinir óður,
handverksmaður heitir Páll
hægur og lyndisgóður.

Á þriðjungnum er hann Jón
oft hefur smátt að éta.
Matar- gleðst við -mola og spón,
má því nærri geta.

Þorsteinn Ytri-Márs um mið
margt býr vel í haginn.
Fylgir honum forstandið
fram og inn um bæinn.

Góins flóa geymir skýr
greitt sem margur hæli,
ránar mána reynir býr
Rögnvaldur í Dæli.

Annars vegar er hann Jón
óms á sagðri kvinnu,
kostgæfinn um flóð og frón
fylginn sér að vinnu.

Á felli búa Tungu tveir
týrar hnúa sunnu,
Oddur nú og Þorkell þeir
þrátt til búa unnu.

Á Melum byggir maddama
með forstandi ólinu,
heiðursverða Halldóra
hrósar gæflyndinu.

Á Búrfelli er Árni minn
þó aðstoð missi vina.
Fylgir honum frómleikinn
fram í eilífðina.

Sigurður hraður hreppstjórn í
Hæringsstaði situr.
Efnamaður og eftir því
örlyndur og vitur.

Sunnu reiða bóla bör
bóndi af skárra tagi.
Jón á Skeiði fýls um för
fylginn sér og laginn.

Eyðir skaða aldraður,
efna síst í þroti.
Greiðamaður gæflyndur
Guðmundur í Koti.

Helst í rúmi, raun sem ber
reirður listum hröðum.
Þorkell heitir þornaver
þar á Atlastöðum.

Arngrímur sem eflir dáð
er á Þorsteinsstöðum.
Sjálfur á hann sína láð
sóma beitir hröðum.

Situr á ánni sandanna
sára lúma beitir.
Hagur vel til handanna
Halldórs nafni fleytir.

Á Göngustöðum Gísli greitt
gáir að sauðkindonum.
Ber hann stundum bakið þreytt
bjargast eftir vonum.

Í Kotinu hýrist hreppstjórinn
heitir Jón vel slyngur.
Vel af sníður vandræðin
veit hann hvað hann syngur.

Klaufa býr á brekkunum
bóndinn Jón að heiti.
Varla rír í verkunum
vænn að mörgu leyti.

Bergur rólar kotið kring
kynnir sig þar vera.
Hann er eins og hugrenning
hvað sem ber að gera.

Á Auðnum þarfa talið tól
trygg að sínu leyti
Freyjustarfa situr sól
Sigríður að heiti.

Sigfús Hóli situr á
sárt þó heltin meiði.
Mönnum flestum mætir sá
máls á fríu skeiði.

Á Þorleifsstöðum Bjarni býr
brögnum myndar yndi.
Suðra lætur súðadýr
synda í Rindar vindi.

Eflir dáð um ormafrón
Urða láðið situr.
Sæmdum þjáður Sveinsson Jón
semur ráðin vitur.

Ellimóður yrkir frón
ævin dregst að þroti.
Hefur lengi hýrzt hann Jón
í Hreiðarstaðakoti.

Hirðir bauga hálfu á
Hreiðarstaða veldi,
er Gunnlaugur inni ég frá
undan margt þó felldi.

Svo kemur hann Sigfús minn
sitt ei vanta lætur.
Þverá byggir hálfa hinn
heitir Jón ágætur.

Tjarnarsókn

Á Steindyrum er stálabör
starfs við glamur tamur,
þar er hinn gamli Þorleifur
þráfalt gamansamur.

Guðmund skýri glöggt þar býr
góma víra flapur.
Auðnan flýr frá örvatýr
er hans rýr búskapur.

Bóndi nýr í bragði skýr
Bakka stýrir ranni.
Magnús fýra móðu týr
mörgu snýr að gamni.

Uppí Gerðum Ólafur
til afrekanna stríður.
Veifir góma valangur
víst á báðar síður.

Sóma prýddur sveigir fleins
Syðra-Garðshorn heldur.
Góðmenni og öllum eins
er hann Jón geðfelldur.

Ytra-Garðshorns yrkir lönd
Arinbjörn hinn prúði.
Mörgum réttir hjálðarhönd
hangantýs á brúði.

Grund er sú sem gæðin ber,
þótt grjótið á hana hrynji.
Þorlákur þar alltaf er,
þótt ellimóður stynji.

Jón í Brekku mætur mann
minnst þá fremur slægðir.
Greina flestir gott um hann
gerir mörgum þægðir.

Jón í koti Brekku býr
búskaps vanur stangi.
Oft hefur sá örvatýr
örðugt átt í fangi.

Niðri á jarðbrú býr hann Björn.
blíður við að tala.
Mín afsegir málakvörn
meir um hann að hjala.

Tjarnargarðshorns bóndinn Björn
býr við gamla siðinn.
Greiðamaður geðs um kvörn,
guðhræddur og iðinn.

Tjarnarstaðinn telja ber,
trúi´ eg þar skuli vera
höfðinglegur höklaver
heitir Árni séra.

Úti í Koti auminginn
allir mega sjá hann.
Hangir Jón við húsganginn
hann er þegar á hann.

Guðmundur sem orku ann
Ingvörum til varna.
Furða hvernig fleytist hann
fjölda meður barna.

Syðra-Holt um gota geim
gefur arð ósmáan.
Býr hann Jón á bænum þeim
betra mörgum á hann.

Ytra-Holti fleygir fleins
til flestra verka tamur.
Er hann Jón og öðrum eins
ástundunarsamur.

Upsasókn
Á Hrafnstöðum Einar má
allra fyrstan telja.
Marga hefur máltíð sá
mörk úr dregið skelja.

Benjamín sem Ásdís ann
er á téðu setri.
Trautt mun þurfa að tyggja hann
tel þann kostinn betri.

Rögnvaldur þar ofaná
efnasmár að vonum.
Gefst mér ekki glöggt að sjá
hvað gæfan ætlar honum.

Árgerði er engjalaust,
er þar snöggur mórinn.
Vinnur Bjarni vor og haust,
vænn er honum sjórinn.

Á Böggvistöðum býr hann Jón
bragnar þar um glósa,
að enginn maður um Ísafrón
hefur öðru eins láni að hrósa.

Brims-á -nesi búandi
baugaver óstaður.
Sagt er það af Símoni
hann sé til verka hraður.

Á Upsum situr ágætur
ei með gáfur slakar.
Séra Baldvin siðprúður
saman fénu rakar.

Lækjarbakka lúrir Jón
lítil efni viður.
Árla rís að seggja sjón
seint þó leggist niður.

Miðkots Jón ég met ei hót
meira en fisk á trönum.
Sáralítil sveitarbót
sýnist mér að honum.

Efstakoti Rannveig rær
ráðgast ei við marga.
Úti hefur allar klær
einni sér að bjarga.

Mærðarskráin minnist á
meiðir bráins hneita.
Gísli Háagerði frá
gerir á fáa leita.

Hóll er jörðin happaslyng
hér við rastarmiðin.
Guðrún býr þar, göfugt þing,
guðhrædd, fróm og iðin.

Jón á Karlsá ekki er
almenningi þægur.
Á hann mikið illt í sér
en þó jafnan hægur.

Sauðanesi Sigurð má
setja bús til hölda.
Mikið klýfur maður sá
með sinn barnafjölda.

Ennþá skýrir óðarkvörn
orða- sízt í -þroti,
með sæmd órýra situr Björn
Sauðaness í koti.

Ólafi meðan endist fjör
unir í Sauðakoti.
Á hann þar við örðug kjör
oft í hafnarþroti.

Þar er brim og boðaföll
og bratt að ríða um grundir.
Þar við glymja skerjasköll,
skelfur tíðum undir.

Þar hefur Fjalars ferjan lent
furðu mjög óheppin.
Nú hef ég Kjalars krumma sent
kring um allan hreppinn.