UMF Skíði um 1930 | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

UMF Skíði um 1930

Fyrsta ljóðlína:Kann ég lítið kvæðalag
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1930
Flokkur:Gamankvæði

Skýringar

Gamanvísnabragur um félaga í UMF Skíða og mun vera ort á blómaárum félagsins í kringum eða uppúr 1930. Ekki var höfundur í félaginu, en hefur verið fenginn til til að setja saman brag og líklega syngja á skemmtisamkomu unga fólksins í dalnum.
Segja má að þessi bragur sé svolítil sagnfræði.
1.
Kann ég lítið kvæðalag,
við kvörnina má ég stríða.
Fátæklegan flyt ég brag
um félagana í „ Skíða “.
2.
Lestraraðferð Árni kann
ást þó litla finni.
Með blautan hausinn bisar hann
við börn á Dalvíkinni.
3.
Margt er það sem Kristinn kann
keyrt á bíl hann getur.
Einhver stúlka eignast hann
og eina rollu betur.
4.
Valt er að treysta á vöxtinn einn
vont er slíkt að dylja.
Einhverntíma yngissveinn
unnað fær þér, Lilja.
5.
Gráttu ekki Gunnar minn,
þó gangi misjafnt stundum.
Það er fullur fjörðurinn
af fögrum yngissprundum.
6.
Þórhallur minn þyrfti snót,
það fer eftir vonum.
einhver býður bros á mót
blíðu atlotunum.
7.
Er hún Jóna ekki ljót,
allra vænsta kvendi.
Hrifin yrði, ef hreppti snót
hring á rétta hendi.
8.
Það er ekki álitlegt
með aldurinn á Sveini,
ástin gengur æði tregt,
einatt þó hann reyni.
9.
Frægri Skíða skemmtun á
skotnum augum glyrni.
Einhver mænir auðargná
eftir Þverár- Birni.
10.
Óskar hefur létta lund
landssjóð mikils virði.
Kemur oft á félagsfund
og flytur gamanyrði.
11.
Oft hjá Snjóku yl ég finn,
aldrei má þó kyssa,
því ekki vill hann Óskar minn
eignréttinn missa.
12.
Mér þykir það mikils von,
að meyjar augum renni
til þín Alli Óskarsson,
afbragðs glæsimenni.
13.
Ef þú kýst þér konu að fá
í Krosshól skalt þú fara,
þar er Freylaug faldagná
fljót til slíkra svara.
14.
Margra er erfið ástarleið
og það felst í mörgu.
Farðu bara og finndu Eið
og falaðu hana Björgu.
15.
Í ýmsu Júlli af öðrum ber,
einhver vill hann kvinna.
Ekki verður álmagrér
eftirbátur hinna.
16.
Mörg er eikin alþakin
ávöxt fyrir Steina.
Vertu snar í víngarðinn
og veldu þér fíkju eina.
17.
Enginn grætur Íslandsson
inngang fyrir krónu,
ef hann mætti eiga von
á ástinni hennar Jónu.
18.
Anna hún er björt og blíð,
brögnum líst á hana.
Þó hún sé ei fjarska fríð
fer það strax í vana.
19.
Það er alveg undravert
í eyrum vel það lætur,
það sem Árni getur gert
til gamans daga og nætur.
20.
Árna þínum ertu góð
ótal kyssir munna,
þó má finna falda glóð
í fórum þínum, Nunna.
21.
Margur veg þann velur sér
vísdóm safna í kollinn.
Alli litli ekki fer
út í meyjarsollinn.
22.
Þeir, sem ungan þekkja Björn,
þrautseigur hann stríðir,
kappinn eignast konu og börn
og kaupir Hlíð um síðir.
23.
Eyða margoft ástarbönd
allri sorg og pínu.
Sigldu beint að Sæluströnd
og sestu þar hjá Stínu.
24.
Brátt ég enda braga flokk,
búin er þessi vaka.
Það má hver úr kvarnarstokk
köku sína taka.
25.
Út á hinsta æfikvöld
er oss skylt að stríða.
Daga, vikur ár og öld
auðnan fylgi Skíða.