Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Félagar í Hringnum

Fyrsta ljóðlína:Ídi er fluttur af feðranna slóð
Viðm.ártal:≈ 1975
Flokkur:Gamankvæði

Skýringar

Gamanbragur ortur um nokkra félaga í hestamannafélaginu Hring á Dalvík.
1.
Ídi er fluttur af feðranna slóð
og farinn að harka í bænum.
Þetta er sko farið að færast í móð
að flytja sig niður að sænum.
Jeppa sér keypti og græðir nú geist,
það geta sko allir þeim bílstjóra treyst.
Hann er svo liðlegur - lipur, þú veist,
hann Ídi .... hvaða Ídi?
Nú hann Ídi, Ídi, Ídi, Ídi í Hringnum.
2.
Þorsteinsson Steini er lagstur í land
og langar ei framar á sjóinn.
Nú mokar hann drullu og meðhöndlar sand,
af myndarskap burt sópar snjóinn.
Í skólanum ætlar að enda sinn dag,
aldrei nær prófi og kann ekkert fag.
Hann síðast af vonbrigðum sjálfsagt fær slag.
Hann Steini.... hvaða Steini?
Nú hann Steini Steini Steini, Steini í Hringnum.
3.
Tungufells- Geiri við tamningar fæst,
tekur á þrjótum með stilli.
Kappreiðarmálefnin metur hann hæst
meira en góðhesta snilli.
Graðhestinn félagsins elur hann enn,
að honum merarnar hópast nú senn.
Hann innheimtir tolla og talar við menn.
Hann Geiri.... hvaða Geiri?
Nú hann Geiri, Geiri, Geiri, Geiri í Hringnum
4.
Finnur er jafnan í kollinum klár,
þó kjaftfor sé pilturinn stundum.
Gleðskapnum stjórnar hann fimur og frár,
frjálslyndur, dáður af sprundum.
Áfall í vetur á fótinn sinn fékk,
flugjárnuð hryssa þá oná hann gekk.
Það varð að keyra´onum beint heim í bekk.
Honum Finni .... hvaða Finni?
Nú honum Finni, Finni, Finni, Finni í Hringnum.
5.
Uppsala Steini með ágætum reið
hér áður, það mátti nú segja.
Hreint eins og engill um loftið hann leið
létt meðal fagurra meyja.
Svo kom þessi traktor og truflaði geð.
Tæpast ég síðan hef ríðandi séð.
Steini er breyttur og merarnar með.
Hann Steini .... hvaða Steini??
Nú hann Steini, Steini, Steini, Steini í Hringnum.
6.
Tryggvi er oftastnær léttur í lund
og laus við allt hjónabandsdekur.
Við allskonar gleði hann styttir sér stund,
við staupinu brosandi tekur.
Syngjandi leggur hann hnakk á sinn hest,
en hefur þó áður sig dálítið hresst.
Kemur á sviðið og kveðandi sest.
Hann Tryggvi .... hvaða Tryggvi?
Nú hann Tryggvi, Tryggvi, Tryggvi, Tryggvi í Hringnum.
7.
Hann Klemmi í Brekku er knappur við flest,
enda kempa úr Framsóknarliði.
Hermann og Eystein hann metur enn mest,
þó mikið nú fylkingin riði.
Fulltrúi Hringsins og formaður er,
á fundunum lætur oft kveða að sér.
Stjórnin er hólpin, hann verk hennar ver.
Hann Klemmi .... hvaða Klemmi?
Nú hann Klemmi, Klemmi, Klemmi, Klemmi í Hringnum.
8.
Hann Steini á Sökku með léttfæra lund,
leikur og spilar við tauminn.
Það elska hann flest okkar fegurstu sprund,
enda fylgist hann oft með í glauminn.
Flekka hans góða sér framm úr skaut,
fyrir frábæra tamningu verðlaunin hlaut.
Smávegis aðstoðar eitthvað þó naut
hann Steini .... hvaða Steini?
Nú hann Steini, Steini, Steini, Steini í Hringnum,.
9.
Björn vor í Ásbyrgi berst um með hægð,
þetta er bráðlaginn Framsóknar piltur.
Þó að yfir oss þeytist í loftinu lægð,
hann er lundgóður, prúður og stilltur.
Skeiðið hann dýrkar og skeifnanna klið,
að skakast á brokki hann kann ekki við.
Hann heldur í tauminn að höfðingja sið,
hann Bjössi .... hvaða Bjössi?
Nú hann Bjössi, Bjössi, Bjössi, Bjössi í Hringnum.
10.
Hann Hjálmar kemst flott af með folana í ár,
þeir fá sko hjá Guði að éta.
Og Þórhallur er ekki á sinunni sár,
þetta sjálfsagt kann piltur að meta.
Hann leikur og syngur og drekkur og deyr.
Drottinn minn góður, ég segi ekki meir.
Jú svo yrkir hann líka þann andskotans leir
hann Bommi ....... hvaða Bommi?
Nú hann Bommi, Bommi, Bommi, Bommi í Hringnum.