Ferðasaga eða folavísur | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Ferðasaga eða folavísur

Fyrsta ljóðlína:Það var í haust er ennþá auð var jörðin
Viðm.ártal:≈ 1975
Flokkur:Gamankvæði

Skýringar

Hestamenn frá Dalvík gerðu sér ferð í Skagafjörð til að festa kaup á graðhestefni.
Komu loks í Kolkuós. einn kostagrip þar fundu.......
Það var í haust er ennþá auð var jörðin,
að ítar nokkrir keyrðu í Skagafjörðinn.
Til glóðarinnar hugðu þeir gott og hlóu dátt,
af gulli fullar pyngjur og vonir stefndu hátt.
Hestakaup höfðu þeir í sinni.
Hestakaup höpp þeim færa kynni.
Hestakaup.

Fjörðinn þveran fóru og endilangan.
Fákahópa milli erfið gangan.
Sútarlegir voru, með svitastorkna brá,
en sáu hvergi fola, sem lýtandi var á.
Í Kolkuós komu þeir um síðir.
Í Kolkuós komu betri tíðir.
Í Kolkuós.

Loksins þráða folann þarna fundu.
Af feginleik og vellíðan þeir stundu.
Aðdáunar augum þeir horfðu á hófagamm
af hreinræktuðu kyni og langt í ættir fram.
Sigurmon seigur er og sleipur,
Sigurmon sjaldan á sig hleypur.
Sigurmon.

Ekki lengi voru að meta og veg´ann,
vænan, glæstan, óviðjafnanlegan.
Sáu fljótt að honum var allt til lista lagt,
- ljúfur kostagripur - í tveimur orðum sagt.
„ Ég kaupi hann! “ kátur Herbert sagði,
„ ég kaupi hann! “ og krónurnar fram lagði.
„ Ég kaupi hann! “

Uppá bíl þeir gripinn settu góða
og glaðir óku af stað til heimaslóða.
Gamanvísur sungu með háum, hvellum hljóm
og hestavísur kváðu með „ digrum karlaróm “.
Af ánægju iðuðu í skinni,
af ánægju yfir heppni sinni.
Af ánægju.

Við leiðarenda á við heimatraðir,
ofan af bílnum folann leiddu hraðir.
Þukluðu og struku um fáksins fríða skrokk,
og fingrum næmum renndu gegnum faxins mjúka lokk.
Í heillaför höfðu drengir farið,
í heillaför heillatíma varið.
Í heillaför.

Nú skeði það, sem æ er örugg vissa:
að allt í einu folinn þurfti að pissa.
Þá furðu slegnir störðu á foldar- græna -lóð
því frussandi undan taglinu keitugusan stóð.
„ Hver andskotinn! “ öskra þeir í reiði.
„ Hver andskotinn er eiginlega á seiði!? “
„ Hver andskotinn! “