Ort á landaöldinni | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Ort á landaöldinni

Fyrsta ljóðlína:Ég heyrði sögu sagða hér um daginn
Viðm.ártal:≈ 1975

Skýringar

Ort í tilefni af afmæli Halldórs Gunnlaugssonar á Melum ......
Ég heyrði sögu sagða hér um daginn
og sagan gengur víða hér um bæinn.
Því sögur eru seigar að seitla um þennan stað
og sennilega geta fleiri borið vitni um það.
Að sjálfsögðu er sagan mikið skrítin,
að sjálfsögðu fæ ég mér einn lítinn,
- Að sjálfsögðu. -

Þótt Mela-kussa margan beri sóma,
þá mjólkar hún nú ekki tómum rjóma.
Þetta er óræk staðreynd, það húsmóðirin veit
því hentist hún í símann og hringdi fram í sveit.
Bónda þar bað um mörk af rjóma,
því bóndans þar má greiðasemi róma.
- Já bóndans þar. -

En þetta samtal flaug á fleiri bæi
og festi rætur þó að enginn sæi.
Svo í öðrum útgáfum aftur fór á kreik.
því líka geta bændasögur brugðið sér á leik.
Og rjóminn sá reyndist nokkuð sterkur,
rjóminn sá er orðinn býsna merkur.
- Rjóminn sá. -

Að skilja þetta var nú ekki vandi,
því vitaskuld var rjóminn bara landi.
Þannig segir sagan samtalinu frá
sælir eru sveitamenn, er símann hlusta á.
Dóri minn, drekktu svo út braginn,
Dóri minn, til hamingju með daginn.
- Dóri minn. -