Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Myndin

Fyrsta ljóðlína:Líf þitt er sem mynd í ramma
Viðm.ártal:≈ 1975
Líf þitt er sem mynd í ramma
sumt er fullgert
en annað ókomið.

Munstrið er fyrir hendi - tilbúið
þú getur hvort sem þú vilt
málað hana, saumað eða ofið.

Sumt af munstrinu er búið
það er hið liðna.

Ófullgerða munstrið er framtíðin
þarna blasir það við
og þú velur í það litina
og ferð eftir því.

Áður var til önnur mynd
með sama munstri.
Nú er hún löngu horfin
í aldanna rás.

En munstrið fannst og er komið
inn í þetta jarðlíf þitt.
Reyndu að vanda þinn saum
þitt mál og þinn vefnað.

Kannski var hin myndin betur gjörð.
Kannski var hún verri
en sama munstur myndar það.

Þú ert bara ein lítil mynd
í atburðarás aldanna.
Allt kemur og allt fer
áður var það hún
nú ert það þú.

Seinna málarðu, saumar eða vefur
þá mynd, sem hún er núna að gjöra.

En hvar hún er
því getur þú ekki svarað.