Eldmessa á Tjörn 1984 | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Eldmessa á Tjörn 1984

Fyrsta ljóðlína:Í kirkjunni á Tjörn, þó að hrím væri á hólunum
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1984
Flokkur:Gamankvæði

Skýringar

Þessi drápa er ort í tilefni af þeim atburði er kviknaði í þáverandi oddvita Svarfaðardalshrepps, Halldóri Jónssyni á Jarðbrú, í messu á jólum 1984.
Drápuna flutti höfundur á fundi hjá Lionsklúbbnum í byrjun árs 1985.
Í kirkjunni á Tjörn, þó að hrím væri á hólunum
á heilögum degi var messað á jólunum.
Í skammdegishúminu kveikt var á kertunum
karlarnir saddir af gómsætum tertunum.

Bændur um kirkjudyr lágar inn léttu sér
leiddu þeir konurnar tregar á eftir sér.
Fylltust nú bekkir af frelsuðum sálunum
því flestir töldu sig rétt halda á málunum.

Oddvitinn galvaskur fór nú úr frakkanum
fólkinu sýnandi sniðið á jakkanum.
Settist við glugga, sem varla er vogandi
varaðist ekki að kertið var logandi.

Brátt tók að rjúka úr fallegu fötunum
fjölgaði óðum á jakkanum götunum.
Brennisteinsfýla og biksvartur reykurinn
breyddist um kirkjuna er harnaði leikurinn.

Ærðist nú söfnuður og allt fór úr böndunum
orguðu krakkar og veifuðu höndunum.
Söngurinn hljómaði, æpandi, emjandi
orgelið stjórnandinn tvíefldur lemjandi.

Presturinn hokinn í stólnum var standandi
stybbu og fýlu með nefinu andandi.
Snarlega reyndi að verja sig vosinu
vel skyldi duga, sem nafni hans í gosinu.

Ein kona að sunnan í sætinu sitjandi
með sálmabók lúna, goðsorðið flytjandi.
Er eldinn hún sá í oddvita klæðunum
æpti hún á Drottinn, sem býr upp á hæðunum.

Upp reis um síðir, með bókinni berjandi
hinn brennandi oddvita, það ekki var verjandi.
Með harðfylgi drap hún eldinn í öskunni
því enginn var dropinn í messuvínsflöskunni.

Endað gat klerkur með „ Ameni “ gjörðina
uppgefinn söfnuður komst niður á jörðina.
Súrir í auga af reyksvælu rokinni
ruku menn heim að messunni lokinni.