Kveðja | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Kveðja

Fyrsta ljóðlína:Kvatt hefur okkur
bls.1981 33. tbl. bls. 4
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1981

Skýringar

Í minning um Ólaf Þ. Kristjánsson fyrrum skólastjóra f. 26. ág. 1903.
„ Margs konar samstarf og samvinna við Ólaf Þ. Kristjánsson
á liðnum árum og litrík kynni
vara lengi glögg í minni. „
Kvatt hefur okkur
karlmenni.
Sagnaþulur
svipmikill.
Garpslegur
í göngu og háttum.
Orðsnjall
og ódeigur.

Fróður var
með fádæmum.
Hildi í orðum
háði marga.
Frásegjandi
fjörmikill.
Ættfræðingur
öðrum meiri.

Skapheitur
og skörulegur.
Gneistandi fór
og geisaði stundum.
Vinnusamur
og verkagóður.
Störfum öllum
sterkleg gegndi.

Glettinn jafnan
og gamansamur.
Lágu á tungu
léttar sagnir.
Athygli vakti
óskipta,
þá stjórn hafði
stórra funda.

Öðrum til heilla
orka vildi.
Lagði sig fram
að leysa vanda.
Fræðslu veitti
fjölda miklum.
Minnisstæður
og mjög virtur.

Orðinn er því
sjónarsviptir.
Fækkað hefur
í framvarðaliði.
Ferð er hafin
til fjarlægra staða.
Verkefni bíða
í veröld annarri.

Eru nú þökkuð
öll hans störfin
þjóðkunn
af þegnskap unnin.
Og árnað heilla
ágætum manni
við landnám nýtt
í ljóssins ríki.