Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Minning...

Fyrsta ljóðlína:Fallinn er til foldar,liðinn
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1981

Skýringar

Í minningu um Eirík Hjartarson föðurbróður höfundar ( F. 1.6. 1885 - D. 4.4. 1981
Fallinn er til foldar,liðinn
frændi, traustur aldinn, vitur.
Ungur sótti yfir höfin,
óttalaus á tæknisviðin.
Heyjaði með huga prúðum,
hagnýt fræði mörgum dulin.
Efla vildi ættarlandsins
orkulindir, tendra ljósin.

Vaskur öðrum vann til heilla.
Víða þess má greina merkin.
Hlífði ekki hönd né þreki.
Hert var sókn er stöðugt varir.
Orku vatns úr læðing leysa.
Landsins nýta gæðin mörgu.
Framtíðinni færa arfinn
fegurri og meiri en áður.

Gróður og vildi allan auka.
Afli sínu beitti og snilli.
Laufguðust tré með limi fögru
í Laugardalnum, prýði mesta.
Óx þá trú á ágæti moldar.
Öðrum þetta veginn greiddi.
Mátti líta þá liðu árin
litadýrð í trjám og blómum.

Síðar hann í Svarfaðardalnum
svipnum breytti á Hánefsstöðum.
Gróðurinn þar gleður auga.
Gott er þar að hvíla í næði.
Njóta ilms og angan jarðar.
Eiga stund í fögrum skógi.
Heilsa vori á vörmum degi.
Vaka og hlusta á fuglakliðinn.

Eiginkonu átti glæsta,
öðrum fremur tryggðum bundin.
Saman áttu um sína daga
samlíf það er gleði vekur.
Haldið var þar hönd í hendi.
Hlúð að því, er bæði gladdi.
Vakað yfir velferð sinna.
Velgerð þeirra börnin átta.

Fróður var og felldi í skorður
frásagnir á máli góðu.
Skoðanir skýrar, fastar.
Skörulegt var yfirbragðið.
Velti gjarnan vöngum yfir
vegferðinni í heimi þessum.
Hugboð átti um hitt og þetta.
Hreinskiptinn í besta lagi.

Nú er horfinn okkar augum
einn af þeim, sem veginn ruddu.
Ljós mörg kveikti á leiðum sínum.
Lagði grunn að betri högum.
Varði til þess vaskleik öllum,
viljasterkur, djarfur, sannur.
Þjóðin okkar þarfnast fleiri
þvílíkra á starfsins degi.

Sonur góðrar sveitar var hann.
Sæmdi hana fósturlaunum.
Hennar vildi veg og gengi.
Verkin tala sínu máli.
Ættjörðinni unni af hjarta.
Auðnuslyngur Reykvíkingur.
Allir þeir, sem Eirík þekktu
eiga mynd í litum björtum.

Farsæld þig
um framtíð blessi
frændi minn
og vinur góður.