Minning | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Minning

Fyrsta ljóðlína:Lokið er látlausri ævi.
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1973

Skýringar

Eiríkur yrkir til minningar um Unu Hjartardóttur föðursystur sína.
Lokið er látlausri ævi.
Ljós eitt er horfið af vegi.
Sól sigin að viði.
Samvistartími liðinn.
Fækkar í frændabálki.
Fellur enn grein af trjánum.
Una, dóttir hans afa,
er kvödd í þetta sinni.

Að Uppsölum átti heima,
ung, að morgni lífsins.
Vinnu þar snemma vandist.
Var þörf á iðnum höndum.
Lék sér að ljúfum draumum.
Lamba gætti í haga.
Sólskin í Svarfaðardalnum
sífellt því henni fylgdi.

Öðrum vel ætíð reyndist.
Um eigin hag lítt sinnti.
Rétti hjálpandi hendi
hinum, er minna gátu.
Vann meðan orka entist.
Ekki sér hlífði í neinu.
Af hugrekki byrðarnar bar hún.
Bætti úr annarra raunum.

Hófsöm var Una í háttum.
Hlýddi skyldunnar kalli.
Ættjörð sinni unni.
Allan veg hennar þráði.
Ein af þegnum þagnar
þeim er hljóðlátt fara.
Á akrinum stöðugt erja
og efla lífsins gróður.

Sjálf vildi þó sínu ráða.
Seiglan í eðli borin.
Vissi hvað verða mundi.
Var ekki hrædd né kvíðin.
Hlakkaði til að hitta
hinum megin við tjaldið
ástvini áður farna
eins fljótt og kostur væri.

Liðin er lífsins stundin.
Lokast brá að kveldi.
Þreytt hefur þegið friðinn,
þann sem að dauðinn gefur.
En brátt mun birta að nýju.
Bjarma af fögrum degi.
Því andinn að eilífu varir
á æðra tilverustigi.