Útsýni af Ásfjalli | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Útsýni af Ásfjalli

Fyrsta ljóðlína:Af Ásfjalli er útsýni glæst
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1988
Flokkur:Náttúruljóð
Af Ásfjalli
útsýni er glæst.
Fjöll og firnindi
fjarri heilsa.
Hafið heillandi
huga gleður.
Byggðir og sundin
brosa við augum.

Í sjónhendingu
sjáum með hraði
Ingólfs landnám
ærið mikið.
Saga þjóðar
sem í skuggsjá
við blasir.
Og vorið ríkir.

Af Ásfjalli
enn sem fyrrum
vekur yndi
víðsýnið.
Gleggra en fyrr
nú greina má
örnefni mörg
af útsýnisskífu.

Ótal nöfn
ýmissa gerða
tiltæk verða
og tryggjast í minni.
Sagnir og staðir
samantvinnast.
Líf og land
í ljósi baðast.

Æska hafnfirsk
og aldnir líka
hraða skulu
hingað sporum.
Unaðar njóta
þar útiveru
og landsins skoða
lögun og prýði.

Af sjónarhóli
sérstökum
horfa skulum
um haf og lendur.
Yfirsýn fáum
þá einstaka.
Fjallkonan mikinn
fögnuð veitir.

Góðan gjörning
gæfan varðveiti.
Þökk sé þeim
er þessu máli
ljúflega og traust
lið veittu
og heillaríkt
í framkvæmd hrundu.