Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Á heimleið

Fyrsta ljóðlína:Heim í fjörðinn, heim í dalinn
Viðm.ártal:≈ 1975
Heim í fjörðinn, heim í dalinn
hugur leitar marga stund,
þar var æskueldur falinn
ævistarfið lagt í mund.
Nú er sól við hafsbrún hnigin
horfin yst við sjónarrönd,
við rökkurkomu roðna skýin,
rennum norður Árskógsströnd.

Vestur yfir Hálsinn höldum
hljótt er kvöld og djúp er ró,
langt að jökuls ljósu földum
lyngið skreytir hæð og mó.
Standa háir klettakambar
kirfilega um dalinn vörð,
fram að Múla nyrstu nöfum
norðan til við Eyjafjörð.

Birtast fjöll í blárri móðu
bæir standa í hlíðarrót.
Hér sem garpar götur tróðu
glaðir héldu störfum mót.
Reistu býli, ruddu vegi,
ræktuðu móa og holtabörð.
Bóndans hönd á björtum degi
báti renndi út á fjörð.

Færðu jafnan fisk að landi
fæddu margan svangan þegn,
einatt viljinn óþrjótandi
til orku færður stormum gegn.
Gott ef augun entist skíma
og eitthvað sást um vík og land,
því áhætta var oft að stíma
inn á Böggvistaðasand.

Hvergi var þá ljós að lýsa
til lendingar í svartabyl,
hrakta mátti húsum hýsa
er höfðu litla birtu og yl.
Ýmsir máttu þrautir þola
og þrengingar að feigðarhyl,
ekki þýddi að þrefa og vola
það var ekkert betra til.

Oft var smalans erfið ganga
upp um hlíð og fjalladal,
fótasár með föla vanga,
flíkur slitnar, léttan mal.
Úr dýraríki matur mestur
mönnum fleytti sérhvern dag,
var heimafenginn baggi bestur
búendanna létti hag.

Milli byggða löng var leiðin
er lá um þessi fjallaskörð,
þá var Heljardalsins heiðin
með hestalest að þjóðbraut gjörð.
En víst munu þessir tröllatindar
töfra sérhvern ferðalang,
meðan blása um veröld vindar
og vor hefur lengstan sólargang.

Nú er annar aldarháttur
allt hefur breyst með lífsins starf.
Nú er ekki mannsins máttur
það mesta sem á treysta þarf.
Heldur vit og viljastyrkur,
vélarafl á tækniöld.
Enginn sultur, ekkert myrkur,
allsnægt hefur tekið völd.

Meðan á að ósi fellur
alstirnt brosir heiminhvel,
foss í klettagljúfri gellur,
geislar sól um laut og mel.
Verndi sérhvert bændabýli
og byggðina við sjávarströnd,
hér öllu lífi af ástúð skýli
alvalds mikla föðurhönd.