Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Góð gjöf

Fyrsta ljóðlína:Í dimmasta skammdegi
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1969
Flokkur:Jólaljóð
Í dimmasta skammdegi
drottinn oss sendir
dásamlega gjöf
og birta hennar
blessun færir
um borgir, lönd og höf.
En einkum þeim,
er örvænting þjakar
og eigra á fremstu nöf.

Á helgum stundum
hjá oss dvelur
hann, sem lífið gaf
og réttir oss af ríkri miskunn
yfir regindjúpin sinn staf,
og vekur þann,
sem veröldin glepur
og á verðinum svaf.

Í dimmasta skammdegi
drottinn oss sendir
dýrðleg fögur jól.
Þau lýsa upp myrkrið
og ljósið birtist
frá lífsins náðarsól
og hamingju skapa
og hjörtun fagna
heims um ból.

Frá Betlehem ennþá
boðin koma
um birtu og frið á jörð.
Í dimmunni ennþá
úti í haga
ýmsir halda vörð.
Og ennþá dvelur
í öryggisleysi
eirðarlaus mannanna hjörð.