Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Bráðum koma blessuð jólin

Fyrsta ljóðlína:Ég veit, þau koma aftur í ár,
Viðm.ártal:≈ 2000
Tímasetning:1993
Flokkur:Jólaljóð

Skýringar

Jólakveðja til vina og vandamanna 1993
Ég veit, þau koma aftur í ár,
það er allt sem bendir til þess.
Þó aðventuhiminn sé úfinn og grár
atvinna stopul og þorskafli smár,
hér gleymist öll gremja og stress.

Eymingjans börnin af tilhlökkun titra
því tíminn líður svo hægt.
En hátíð mun skella á heimska og vitra,
sem höll þá ljómar hver einasta kytra
og skuggunum burtu er bægt.

En verkefni margháttuð verður að leysa
svo veitist oss friður um jól.
Hvort úti er blíða, eða byljirnir geysa,
börn eru frísk, eða hrjáir þau kveisa;
engu má stinga undir stól.

Hér inni í stofu á borðinu bíða
í bunkum óskrifuð kort.
Þau vekja til skiptis kæti og kvíða,
því kortið er til þess að skrifað sé í´ða
ljóð sem á árinu er ort.

Ég reyni að gera mig greindan í framan
en gengið við skriftir er slakt.
Treglega gengur að tína það saman
sem tengist jólum og öllum finnst gaman,
og fyrr hefur flest verið sagt.

Þá minnist ég orða sem alltaf má nýta
og í þeim finn ég mitt skjól.
Aftan í kvæðið kveðju má hnýta:
„ Kæru vinir, megið þið líta
góð og GLEÐILEG JÓL! „