Til Helgu systur 1974 | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Til Helgu systur 1974

Fyrsta ljóðlína:Ég elti þig ungur um götur og grund
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1974
Flokkur:Ljóðabréf
Ég elti þig ungur um götur og grund
gott þótti með þér að vera.
Marga þá áttum við ánægjustund
alltaf var nóg til að gera.

Við þóttum bæði barnsleg og góð
brösuðum mikið á daginn.
Vorum að semja sögur og ljóð
og sýsla í kringum bæinn.

Dalurinn heima var heillandi sveit,
heiðlóan fegurst þar syngur.
Fallegar hlíðar og búfé á beit
bláleitur fjallanna hringur.

Umhverfið gaf okkur þroska og þrá
og þekkingarlöngun í hjarta.
Við elskuðum fegurð og fjöllin blá
frelsið og sólskinið bjarta.

Þá búið var æskunnar aldri að ná
og alvöru lífsins finna.
Urðum við starfinu æ meira háð
í alvöru fórum að vinna.

Nú sáum við vonirnar, svolítið þreytt
og sælustu draumana rakna.
Minningin lifir þó margt sé breytt
og margs við hljótum að sakna.