Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Á titils

Fyrsta ljóðlína:Ef að ég hjá Kristjáni einn fimmeyring ég fengi
Viðm.ártal:≈ 1975
Flokkur:Gamankvæði

Skýringar

Kristján Ólafsson var verslunarstjóri hjá KEA Dalvík, þegar ég sem starfsmaður eignaðist fimmeyringinn minn!
Ef að ég hjá Kristjáni einn fimmeyring ég fengi
fyrir góða þjónustu í meira en tuttugu ár.
Ég kyssa myndi Stjána og klappa vel og lengi
og kaupa síðan gjafir til að standa að öllu klár.

Ekki má ég skilja svo við Skáldalækjarfrúna
að skenki henn´ei nylonslopp af þokkalegri gerð.
Og Hallur fengi stráhatt og hettu vel til búna,
ef heita vatnið brytist út á ægilegri ferð.

Ég koma þarf í Sökku og frúna þar að finna
og færa henni mannbrodda, það er nokkuð til í því.
Því sleipt er oft á hólnum, en verkin þarf að vinna.
En verst er hvað hann Þorgils þarf að taka sér oft frí.

Að Hánefsstöðum suður ég hraða mér í skyndi.
Hakkavél og rúsínur hún frænka mín þar krefst.
Viðarklippur stórar handa Friðrik eflaust finndi,
hann færi þá í grisjun þegar tækifæri gefst.

Að Uppsölum ég leiðina lagði þá í hasti,
þau lágu út á bæjarhólnum, hjónakornin þar.
Ég afhenti þeim værðarvoð og eina körfu úr basti,
allt þetta var vel þakkað og ég leiddur inn á bar.

Þau lánuðu mér þotu svo ég renndi mér á rassi
til Rósu heim að Völlum og stærðar trefil gaf.
Því það eru ferleg umskiptin úr hitabeltishöllum,
þótt hafi hún Snorra einatt fyrir neðan beltisstað.

Á Brautarhóli suður var bærinn alveg læstur.
Og búskapurinn rekinn í alveg nýjum stíl.
Þetta virðist smitandi og það er vandi stærstur,
þraukar Júlli í Gröfinni, með rolluskjátu og bíl.

Láru minni á Hofi ég skyldi gefa skíði,
það skal því enginn trúa hve þægilegt það er.
Þeir vita það best sjálfir, sem á bröttum hólum búa,
að bregða á sig tábandi og renna hvert sem er.

Ég kæmi við hjá Heiðbjörtu og kyssi hana á vangann.
Kaffikvörn er gjöf sem að væri nokkuð snjöll.
Þá gæti hún alltaf malað eftir list sinni og langan
og lukkutröll fær Gísli, já svona eins og börn.

Sigríði í Hofsárkoti ég kannski færði kaðal
sem kasta mætti af hlaðinu og alveg niður á veg.
Það Gulla mundi notast þegar væta er og vaðall
þá verður brekkan illfær og hálkan agaleg.

Friðriku á Hvarfi ég brauðhníf myndi bjóða
betri gerðin yrði það að vera finnst þér ei.
Hjarta úr æðarkollu, sem salta mætti og sjóða.
Síðan myndi ég gefa Óla lítið pelagrey.

Frúnni á Syðr-Hvarfi ég færa myndi líkan
af fósturjörðu vorri með ljósi innan í.
Þegar sumarfríin byrja og þau svífa um landið norðan,
væri sennilega geysimikið öryggi í því.

Hjónunum á Hnjúki ég gefa þyrfti góða
í gylltu bandi skruddu, sem væri metin þar.
En það er ekki vandalaust því verkefni að þjóna
því valdi ég samt bókina „ Horfnir Góðhestar “.

Jónínu á Klængshóli ég færa myndi fötu
feykilega vandaða af allra bestu gerð.
Minnisbók í bandi og skinn af hertri skötu,
það skyldi Hermann nota sér í hverja sendiferð.

Ég labbaði útað Þverá þegar komið var að kveldi,
kannski að ég bæði þar um gistingu í nótt.
Sigrúnu ég færa þyrfti ofn með arineldi,
Ingvi fengi reiðstígvél og myndablaðagnótt.

Kristínu á Másstöðum ég þyrfti að gefa þotu,
þægileg hún reynist á svona bröttum stað.
Hjónkornin gætu þá í einni aðallotu,
út úr fjósi hlaupið og rennt sér út á hlað.

Síst af öllu mætti ég systur minni gleyma,
sennilega færði ég henni bindi af   ,, Heima er best „.
Eina bók fær Gunnar, sem ég aldrei muni gleyma
og öll gæti fjölskyldan notað þetta mest.

Hún Birna þarna á Melum hefur býsna mörgu að sinna,
bæði heima á staðnum og líka í Víkurborg.
Ég færði henni súkkulaði, ís og ostapinna,
og ætli Halldór fengi ekki snæri í nýja dorg.

Að Búrfelli ég færi, þótt þar bratt sé upp að spana
og biði Sveinu kleinuhjól með renndu skafti og hún.
Ég stingi upp í Matta svona gotti af gömlum vana
og greyið litla hefði þetta með sér út á tún.

Inn ég liti á Skeiði til að finna frænku mína
og færði henni skálasett af snyrtilegri gerð.
Mér fannst ekki undarlegt þótt Hauki tæki að hlýna
um hjartarót, því konan gaf mér slíka kossamergð.

Guðrúnu í koti ég gleðja þurfti líka,
því gaf ég henni sykurtöng og litla alparós.
En Jónas stóð þar álengdar og vildi fáu flíka,
því fékk honum sykurmola og jarðaberjadós.

Á Atlastöðum Lenu ég ólmur vildi finna
en ekki veit ég hversu vel Jóa leist á það.
Ég færði henni túlípana, talsvert stærri en hinna,
tyggjó gaf ég bóndanum og labbaði af stað.

Á Þorsteinsstöðum Erlu ég þurfti líka að hitta,
þorskhausa og fjallagrös ég færði henni um leið.
En í úthýsi var Gunnlaugur að dóti sínu að dytta
ég döðlupakka rétt´honum og norður á veginn skreið.

Í Göngustaðakoti er gaman heim að líta
og gefa Rósu litabók með mynd af vænni kú.
En Tryggvi bóndi kepptist þar við hnappheldur að hnýta
og hann fékk svona kandísmola, aðeins stærri en þú.

Í Klaufbrekkur auðvitað ég koma þurfti núna,
kertastjaka og skiptilykil Hreini mínum gaf.
Og ekki gat ég hugsað mér að undanskilja frúna
ég ýtti að henni bíkini og stakk svo bara af.

Í Klaufabrekknakoti var hann Kalli úti á hlaði,
ég karamellur gaf honum og labbaði svo inn.
Hann kallaði á eftir mér að konan væri í baði
svo ég kvaddi bara í hasti og sendi henni gæruskinn.

Það hallar undan fæti er út að Hóli held ég,
húmið er að síga á Svarfdælsk austurfjöll.
Ég Höllu færði skinnhanska úr minka Böggvisbóli
og bað svo Atla að þiggja af mér lítið sparitröll.

Útundan hún Guðlaug mín á Urðum mátti ei verða.
Ég ætlaði henni dúkku af þokkalegri gerð.
Og ef það kynni á dætrum hennar örlítið að herða,
verði enginn betur fimmeyringi, en ég í þessa ferð.

Að Hreiðarstaðakoti ég held í mesta flýti.
Ég hitta þurfti Maríu í leiðinni hvort eð var.
Hrosshúð einni rauðskjóttri ég inn til hennar ýtti,
úðadælu Sigurði til að vökva rófurnar.

Á Hreiðarstöðum úti voru hjónin verk að vinna
og varla hægt að tefja þegar svona stendur á.
Ég lét þau hafa kertapakka og kefli af hvítum tvinna,
kindabjúgu og sígarettupakka eina þrjá.

Guðrúnu á Þverá ég gefa vildu tösku,
það gott er bæði og nauðsynlegt að eiga slíkan grip.
Og Guðbergi ég sendi líka fulla ,, thule „ flösku,
hann feginn varð og ánægður með gleðibros á svip.

Að Steindyrum til Nínu ég stika hraðar núna
og sting að henni náttlampa af Kínaveldisgerð.
En Reimar var að dunda með dunka upp við brúna,
ég dyrabjöllu rétti honum, fyrst ég var þarna á ferð.

Ég flýtti mér í snarheitum að finna Helgu á Bakka
og færði henni gestabók með skrautlegt titilblað.
Ingva gaf ég skeifnagang og skó á lítinn krakka,
hann skellihló af ánægju og við gengum út á hlað.

Sunnan fyrir bæinn þar hún Kristín var að koma
kirsjuberja lét ég hana stóra hafa dós.
En mér fannst hreint í Þórarni að vesöld væri og voma,
svo ég vatt að honum dyrasíma, með sjálfvirkt útiljós.

Sigrúnu í Bakkagerðum síst ég mætti gleyma
um söguna í túninu (heima) er hugmynd æði klók.
Það er geysileg spennandi ef Gestur er ei heima
að geta kveikt á lampanum og litið svo í bók.

Þuríði í Garðshorni við þyrftum og að gleðja,
þríhjól væri tilvalin gjöf á þessum stað.
Í skólann myndi hún bruna en kannski gleyma að kveðja,
en hver veit nema Júlíus gæti bætt um það.

Ytra við í Garðshorni ei Önnu megum gleyma.
Æðardúns við sæng myndum færa báðum tveim.
Í rökkrinu þar inni hún ljúft sig léti dreyma,
en lyfti aðeins horninu þá bóndinn kæmi heim.

Þrúður mín á Grundinni þraukar eftir vonum
þarflegt væri að færa henni grillofn veglegan.
Haraldi þá gullastokk við gefa myndum honum,
í gönguferð þá brygðu þau sér eftir fjóstímann.

Leiðin út að Brekku er vanda ýmsum vafinn,
því víða leynast gil og klungur sem að varast þarf.
Ég hjónum gæfi melónur, er sætur rynni úr safinn,
því svoddan reynist nauðsynlegt við daglegt ævistarf.

Ástdísi í Holti ég sultukrukku sendi,
Sigurði ég færa myndi vasahníf og stál.
Þeim farist hefur búskapurinn heldur vel úr hendi
síðan hann lét loka hliðinu og notaði í það ál.

Í Helgafelli suður er vinalegt að vera,
og varla fer ég um svo ég komi þangað ei.
Því færa myndi konunni afbragðs eggjaskera
og ætli Tryggvi fengi ekki stóran bauk af sprey.

Ingibjörgu á Jarðbrú ég ekki mætti gleyma
og efalaust ég færði henni Legokubbafjöld.
Því það væri svo notalegt, þá Halldór er ei heima
að hafa annað dundur svona kvöld og kvöld.

Hjá Sigríði á Tjörn er sagt voða gott að vera
og vænan kassa af konfekti ég bæri þangað inn.
En hryggilega mikið hefur Hjörtur minn að gera
og hann fengi þá konfektmola í litla munninn sinn.

Hér endar þessi þáttur því lokið hef ég labbi
og langur tími verður að ég komi í annað sinn.
Út af fimmeyringnum mínum hef ég kynnst hér ýmsu kvabbi.
En kvenfélagið Tilraun skal svo hljóta afganginn.