Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður 1933

Fyrsta ljóðlína:Langar mig á laugardag
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:02. 03. 1933

Skýringar

Ort um félagsmenn í Ungmennafélaginu Þorsteini Svörfuði í mars 1933
1.
Langar mig á laugardag
með litlri sæmd og prýði,
um Þorstein Svörfuð þylja brag
þegi menn og hlýði.
2.
Leitt er það með Lunda minn
láð honum þið getið,
ekki hefur auminginn
ungfrú náð í fletið.
3.
Bylur tíðum bassatón
bónorði þó fresti,
en sæmd er fyrir Sigurjón
sínum þjóna presti.
4.
Galli er það þó góður Sveinn
gjöri fé að halda.
Hann má alltaf hátta einn
í holuna sína kalda.
5.
Það er synd og svívirðing
Sigvalda að tæla.
Maðurinn hefur mikinn hring
og Magga færi að skæla.
6.
Verður bæði í von og grun
vorum kærleik bylta,
að Lilja í gegnum gleraugun
glámskyggn er á pilta.
7.
Ég tel Jóhann yngismann
frá innstu hjartans rótum.
Á tónstiganum trítlar hann
taktfast eftir nótum.
8.
Dvalarstað á Dalvík fann
drengnum óspart hæli.
Með rauðan hausinn rembist hann
ritarinn Árni í Dæli.
9.
Í vor er líður veturinn
vinur bjóða arminn.
Kristinn tekur traktorinn
og treður fé í barminn.
10.
Farðu ei Jónas flast af stað
fyrst er slíkt að varast,
meyjar kunna að meta það
og margir aurar sparast.
11.
Mörg er ástin undarleg
ýmsra er misjöfn kvöðin.
Prýðir einhvern „prívat “ veg
pálmaviðarblöðin.
12.
Kúnum dalsins Einar ann
inn í hverju fjósi.
En sæmra væri ef sæi hann
svanna í nýju ljósi.
13.
Ertu Magga ung og fín
allra fríðust kvenna.
Aldrei fæ ég ást til þín
er það Silla að kenna.
14.
Anna komdu upp í fjós
elskulega kvinna,
þar sem kærleiks logar ljós
á lampa augna minna.
15.
Stúlka gægðist áðan inn
öll í skjól var fokið.
En þegar hún sá Þórarinn
þá var henni lokið.
16.
Það er grátleg sjón að sjá
Sigurð félagsstjóra,
utanvert við auðagná
ætlar hann að tóra.
17.
Býstu við því Bjössi minn
að búa eins og álfur.
Er ei betra aulinn þinn
að eiga konu sjálfur.
18.
Betra er Jonna að búa í ró
hjá blíðu hjarta og prúðu,
en að draga upp úr sjó
eina skitna lúðu.
19.
Yrðu lætin ógurlig
og allt færi í „ hasar “,
ef að Helga sjálfa sig
setti á þennan „ basar “.
20.
Sigurjón er sundi ann
sjálfsagt tekur metið,
á björguninni buslar hann
beint í hjónafletið.
21.
Eitt er best við góðan Gest
þó geymi hann flest í minni,
að kossabrest hann kýs sér mest
hjá konu festar sinni.
22.
Líðst mér ekki að lasta menn
og ljóð á aðra bera.
Friðrika er ógift enn
ei má svoddan vera.
23.
Fríð er Stebbu festing blá
og fléttur báðumegin.
Ó hve dýrðlegt er að sjá
er ég fer um veginn.
24.
Aldur Hjalta er ekki hár
ástmey þó hann finni,
má hann bíða í ótal ár
eftir giftingunni.
25.
Broslegt væri að benda á
brúði er hjartað gæfi.
En Jóhannes mun sjálfur sjá
svanna við sitt hæfi.
26.
Ástin marga eykur raun
íhugaðu þetta,
ef Bjössi færi að blóta á laun
Björg það mundi frétta.
27.
Viltu Lauga verma mig
vantar margan hita.
Ef ég kæra kyssi þig
Klemens má ei vita.
28.
Klemens marga kosti ber
með kærleiksgeði þekku.
Fórnaði hann sjálfum sér
í Sigurlaugu í Brekku.
29.
Mörgum stúlkum brá í brún
er biðu eftir vali,
þegar Jóhann hátt við hún
hampaði festarskjali.
30.
Upp hann Jónsi bónorð bar
beint frá hjartarótum.
Gnistran tanna og grátur var
hjá gumum jafnt sem snótum.
31.
Rúna mín ég ráð eitt kann,
sem raunar á við marga,
að engin nær í ungan mann
sem ekki vill sér bjarga.
32.
Ef langar Jóa í litla frú
þá leggðu stein í grunninn.
En háleit yrði heillin sú
að hitta beint á munninn.
33.
Gott er að treysta á traustan mann,
ef traust er hjarta og höndin.
Treystu á þig og treystu á hann
og treystu á vinaböndin.
34.
Í Jóhannesi er löngum lið
leikarinn sallafíni.
En bölvað er ef bónorðið
ber hann upp í gríni.
35.
Stefán hefur litla lund
líður að hjónabandi.
Telur betri tvinnahrund,
en traktorinn á landi.
36.
Fáar kjósa faðminn þinn
af fögrum hringaskorðum.
Það er orðið Elli minn
öðruvísi en forðum.
37.
Ágústa var æði kná
ungan Jón að máta.
Meyjar dalsins máttu þá
mörgum tárum gráta.
38.
Þegar héla gluggans gler,
gott er Hara að muna.
af því ljóðin upp úr þér
allar stundir buna.
39.
Ef að þín er ástin heit
að henni betur hlúðu.
Flyttu þig Siggi fram í sveit,
fáðu þér konu og búðu.
40.
Ég í huga sjálfs míns sé,
sem mun gleðja lýði.
Vaxa hér upp veglegt tré
og verða sveitaprýði.