Ríma af Gunnari Brekkubónda | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Ríma af Gunnari Brekkubónda

Fyrsta ljóðlína:Hljóðs bið eg allar helgar kindur.
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:1985
Flokkur:Afmæliskvæði

Skýringar

Ríma sem flutt var Gunnari Jónssyni (f. 1935) bónda í Brekku í Svarfaðardal þegar hann varð fimmtugur.
Hljóðs bið eg allar helgar kindur.
Hljóðni skriðjöklar, sjór og vindur.
Lát oss heyra í ljóði þekku,
lítinn sannleik um Gunna í Brekku.

–-
Féllust hendur hjá firðum öllum
er fæddist drengur hjá Jóni á Völlum.
Anna sór þess eið þann vetur
að eignast fleiri og gera betur.

Var þá enn í vöggu snáðinn,
úr Völlum burtu för var ráðin.
Komið var æki á kerruhestinn.
karlinn var farinn að ergja prestinn.

Ei var sýndur í öðrum hreppum.
Ástæðunum hér við sleppum.
Þótti nóg að gert með Gunnar
að geyma hann nokkrum bæjum sunnar.

Gekk í skóla á Grafarárum,
Grundin kom út svita og tárum.
Um þroska og vit í þessum peyja
Þórarinn vildi ekkert segja.

Hjá Gunna og fleiri Grafarskálkum
griðin minnkuðu á báðum kjálkum.
Einsýnt var að þeir yrðu að harka
utan nýrra hreppamarka.

Burt þá flokkur fór með hraði,
flæmdist  niðrí Böggvistaði.
Þá Jóni leist að loks hann þyrði
að labba heim frá Siglufirði.

Þá í söfnuð þótti tækur,
þegja um málið kirkjubækur.
Kann að heita kristinn maður?
Kannski var hann afdjöflaður.

Ýmsum þótt’ann pörupiltur,
pratinn mjög og ærið villtur,
kunni að opna á einu laufi,
við annað þótti mesti klaufi.

Næst það sögur segja um drjóla,
hann sendur var í menntaskóla.
Mjög var greiður menntavegur
þótt mönnum áður þætt’ann tregur.

Latínu hann lærði og þýsku,
og líka margt sem var í tísku.
Var á stöðum öldurs út hent,
á endanum þó varð hann stúdent.

Myndugur í orði og æði
ætlaði sér í læknisfræði.
Ekkert vit því fannst í fagi
og fór að vinna í kaupfélagi.

Sagt var þá að sveinninn klúri
sækti gleði úr Jóhanns búri.
Knástur meðal kátra nagga,
kunni að syngja, hlæja og gagga.

Rekka varð það reynsluskóli
að reysa bú að Víkurhóli.
Lék í honum líf og þróttur
með ljósmóður og bóndadóttur.

Fór að búa í fínu sloti,
flottara en í mörgu koti.
Oft var sögð og unnin slemma,
enda naut hann ráð Klemma.

Í skólanefnd var skálkur kjörinn,
skaffaði kjötið, brauð og mörinn.
Talinn ávallt verks með viti,
varð að lokum skólabryti.

Farin voru að fæðast börnin,
í fjórða skiptið búin törnin.
Hlaut hann ró á sálu og sinni
og situr nú í hreppsnefndinni.

Hér þáði löngum lögg af djúsi
og leit við niðrí þvottahúsi,
nærðist oft á kaffi og kleinum,
kættist æ með glöðum sveinum.

Húsbóndanum heilla biðjum,
hann til góðra verka styðjum.
Honum líf og lánið dugi
þótt lifi marga áratugi.

Veitingarnar vel ég þakka.
Víst er best að hætta að snakka.
Andlitum snúið austr að Mekku
á afmælisdegi Gunna í Brekku.