Atlamanna-annáll | Kvæða- og vísnasafnið Haraldur
Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Innskráning ritstjóra

Atlamanna-annáll

Fyrsta ljóðlína:Nú skal kvæða stilla streng
Viðm.ártal:≈ 1925
Flokkur:Gamankvæði

Skýringar

Vísurnar eru um félagsmenn í ungmannafélaginu Atla í Svarfaðardal og birtust í félagsriti Atla, Mána
Atlamanna - annáll.
1.
Nú skal kvæða stilla streng
og stytta kveldsins vöku
fyrir bæði fljóð og dreng
flétta saman stöku.
2.
Lipurt sungin ljóða mál
lundu aldrei þreyta
hressa bæði hug og sál
hryggð í gleði breyta.
3.
Niður fellur formálinn
fátt sem gjörir prýða
Byrjar aðal bragurinn
bið ég fólk að hlýða.
4.
Þér ég greina fyrst skal frá
frúarefnið mæta
Jónína með blíða brá
Búrfells heimasæta.
5.
Jóhannesi á leiðum lífs
lánið fylgi blíða
þurfi aldrei kulakífs
kjörin við að stríða.
6.
Ari verndar góður gegn
gæfurætur stinnar.
Verður frjáls og frómur þegn
fósturjarðarinnar.
7.
Hjartamildur konum kær
-kostir prýða mætir-.
Pálmi snilldar penna fær
pappírsblaða gætir.
8.
Þórarinn með þrekið traust
þekkur, hýr og glaður
búmannsefni efalaust
ungur sómamaður.
9.
Lífsins tafl í heimi hér
hug með leiktu glöðum.
Vaki auðnan yfir þér
Árni á Hæringsstöðum.
10.
Happaslingur Einar er
á ýmsum sviðum fróður.
Vel með formannsvöldin fer
virtur bæði og góður.
11.
Fylgi alla æfislóð
-hjá öllum hættum sneiði-
lukkudísin ljúf og góð
Láru minni á Skeiði.
12.
Málstað réttum færir fórn
frjáls og góðviljaður.
Verður Sveinn í varastjórn
verka þarfur maður.
13.
Gæfu sólar glaða skin
greiði allt í haginn
signi og blessi Sigurvin
síðsta fram á daginn.
14.
Kristín lýða hlýtur hrós
hugans sviptir drunga
hjartablíða blómarós
bauga niftin unga.
15.
Rögnvald snjallan rekk ég tel
rétt sú lýsing hljóðar.
Fylgja honum fram í hel
frá mér óskir góðar.
16.
Hlýjar sveina hug og önd
heiðurs skorta gnóttir
silkireynin siðavönd
Sigríður Árnadóttir.
17.
Vífið blíða, vært og hljótt
vaggi í fangi sínu
lífsins öldur undurrótt
æfi fleyi þínu.
18.
Vel á Sandá Sigtryggur
sinnir störfum glaður
viðmótshýr og vinmargur
varastjórnarmaður.
19.
Arngrímur á lífsins leið
lítur augum björtum.
Eflaust síðar eflir seið
yngismeyja hjörtum.
20.
Um það hef eg vissa von
að verði árangur góður
þar sem Guðjón Gunnlaugsson
gefur sauðum fóður.
21.
Kristján ungur fús á frið
fagurt dæmi gefur.
Bundið trygga barnslund við
bernskustöðvar hefur.
22.
Eina sanna ósk ef fann
er nú svanna tjái.
Góðan mann og gáfaðan
gæflynd Anna fái.
23.
Væta piltar vasaklút
von er að til þeir kenni
Magga er gift og gengin út
gæfan fylgi henni.
24.
Þórarinn í fljóða fans
fagra slær á strengi.
Aurarnir í höndum hans
hundraðfaldast lengi.
25.
Hljóti Óskar höppin fín
höpp sem lengi duga.
Í varastjórn hann vinnur sín
verk með glöðum huga.
26.
Vænum sveinum viðmótshlý
veldur ástarskoti.
Rósa glöð og góðlynd í
Göngustaðakoti.
27.
Víst mun hitna hjartablóð
í hýrum dalsins rekkum,
er þú birtist ung og rjóð
Anna á Klaufabrekkum.
28.
Blómgist von á vorsins meið
vina hljóttu gnóttir.
Horfðu djörf á lífsins leið
Lilja Hallgrímsdóttir.
29.
Jónína mun hljóta hrós
hýr af ungum sveinum.
Dafni þessi dalarós
í dyggðaríkum greinum.
30.
Vel mun kunna höndin hög
að halda á smíðatóli
jafnvígur á járn og sög
Jónmundur á Hóli.
31.
Bundin er við búsins stjá
blíður rór og hægur.
Friðbjörn oft með orf og ljá
unir um sumardægur.
32.
Þeirra systir Oddný er
yndið hljóti sanna
hvert sem lífsins byrðing ber
bylgja örlaganna
33.
Friðrikka er fjörug mey
fæðast um þig bögur
kostum búin auðarey
æskuprúð og fögur.
34.
Anton þrekinn kraftaknár
hvergi breytir stefnu.
Garpur þessi gætir fjár
greindur í mörgum efnum.
35.
Eflaust Martha elskað fær
ungan hal í tryggðum
Einhver hennar hjarta nær
hér í dalsins byggðum.
36.
Ungur halur Urðum frá
öðlast blíðu hrundar
Hjörtur Dalvík unir á
alskyns smíði stundar.
37.
Gætinn vel og gæflyndur
greiðir úr lífsins snurðum
sóma var og siðprúður
Sigurður á Urðum.
38.
Jæja! bráðum búinn er
bragur fanga léttur.
Atlamanna annáll hér
er í rímið settur.
39.
Upp hef lesið óðarskrá
innt af höndum skyldu.
Blessi auðnan alla þá
á sem hlýða vildu.
Haraldur á Jaðri.