Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Bændaríma í Svarfaðardalshreppi

Fyrsta ljóðlína:Til að setja saman ljóð
Viðm.ártal:≈ 1925
Tímasetning:1932
Flokkur:Bæjavísur

Skýringar

Kveðin í marsmánuði 1932. Vísurnar voru gefnar út í bókarformi árið 1936. Þar er höfundarnafnið Haraldur á Jaðri. Þær eru samtals 93.

(Stafhenda aldýr)

Til að setja saman ljóð
svo að geti orðið góð,
hjálpar bið ég bljúgur þig
Braga-Iðun, styrk þú mig.

Blendið kýs ég bragarval:
bændavísur kveða skal.
Stefnir fyrst mín stefjaskrá
strandar ysta bæinn á.

Sinnisglaður, Jónsson Jón
jafnlundaður græðir frón;
böli þrotinn halur hress
heldur kotið Sauðaness.

Á Sauðanesi heldur hjú
hirðir fés og stundar bú,
burðarstóri bóndinn Jón,
blíður, rór og frí við tjón.

Sitt á Karlsá bætir bú
beitir fals í sannri trú,
Þorsteinskundur Þórarinn
þarna stundar búskapinn.

Útgerð stundar ótrauður
óðalsbóndinn Þorleifur.
Viður bóla bætir lönd
byggir Hól á Upsaströnd.

Býr á Felli fáskiptinn,
frí við hrelling, Jóhann minn;
lyndiskátur, lipur vel,
löngum státinn rær í sel.

Í Há-Gerði byggir best
brjótur sverða, skap með hrest;
víða á storðu velþekktur
í verki og orði Sigurður.

Situr Koti-Efsta á,
- akkersgota stýrir sá -
Antonssonur Þorsteinn þar
því að vonum kennir mar.

Annar býr þar örfaþór,
orðaskýr,  í  geði rór;
Friðbjörn heitir seggur sá,
sinnisteitur bús við stjá.

Í Miðkoti ekkja býr,
á því sloti ræður skýr.
Hringananna á hlíra fróns
heitir Anna dóttir Jóns.

Stefán klækjum stýrir hjá;
stjórnar Lækjarbakka sá.
Veit ég fróður veigagrér
vænn og góður drengur er.

Arnór gætir Upsaranns;
er það mætur runnur brands.
Brátt er greppsins baga gjörð,
býr á hreppsins eignajörð.

Stefán fróður drýgir dáð
og dyggðagróður, vítt um láð.
Bör - sá - kesju ber gott orð,
Brims- á -nesi ræður storð.

Boðnarmjöð skal blanda’ á ný,
Böggvistöðum að ég sný:
Loftur ræður löndum þar,
lipur græðir krónurnar.

Í Árgerði unir best,
oft á ferðalagi sést,
Lærður, fróður, laus við tjón,
læknir góður Sigurjón.

Hrapps- á -stöðum heldur bú
hug með glöðum, vaskur, nú
Páll og auði safnar sér
síst á brauði skortur er.

Í Hrappstaðakoti, klók
kempan glaða búið jók;
Magnús heitir hirðir brands,
heimareiti græðir lands.

Ytra- byggir -holtið hár
halur, dyggur verkaknár,
hugarglaður hirðir fés,
heiðursmaður Jóhannes.

Sóknin endar- Upsa hér,
eins og kenndu fræðin mér.
Tjarnarsveitin tekur við,
til skal breyta um háttasnið.

       (Skothenda)
Ólaf kalla manninn má,
margt til þarfa hyggir;
handarmjallar hirðir sá
Holtið-Syðra byggir.

Sigurðskundur Sigurður
sæmdar vafinn pelli,
með blíðri lundu, bóngóður,
býr á Helgafelli.

Rík af gæðum göfugum,
góðu fús að þjóna,
yfir ræður Ingvörum
ekkjan Sigurjóna.

Tryggur, heldur, tíðum hýr
Tjörn í góðum blóma,
Þórarinn Eldjárn, þrekinn býr
þar með heiðri og sóma.

Drjúgur starfar, dverghagur,
dyggða þráð ei rýrir,
Guðmundsarfi Guðmundur
Gullbringunni stýrir.

Lýður hrósið Birni ber.
Blíðu sáir korni
tundursósa- tryggur -ver
Tjarnargarðs- í horni.

Bitru, teitur baugatýr
bregður gómasverði,
Jóhann heitir Jónsson, býr
Jarðbrúar- í Gerði.

Miðlar arði sæmdar sá,
sómamanna jafni:
Bóndinn Jarðbrú ungur á,
ötull, Jón að nafni.

Sveit í miðri segginn tel
sínu ráða sloti.
Bús við iðju unir vel
Árni í Brekku-Koti.

Kunnur rekkur víða vel,
vinur dýra og manna;
Halldór Brekku blítt með þel
byggir Þórs á svanna.

Hjörvaspennir hress í lund,
Hólaskóla genginn,
Björn á henni gömlu Grund
gleði slær á strenginn.

Í Blakksgerði yrkir frón,
ötull býr að sínu,
hristir sverða heitir Jón,
heppinn fjörs á línu.

Harald þá með hraustri mund
höldinn nefni vitra,
gumi sá með góðri lund
Garðshorn- byggir -Ytra.

Daníel fróður, skemtinn, skýr,
skilnings sáir korni.
Siðagóður seggur býr
Syðragarðs- á horni.

Júlíus glaður róms um rann,
runnur skíða vitur,
líka staðinn stóra þann
stjórnfars góður situr.

Álfum frakka ama best
eyðir lundur mækja,
og á Bakka-Gerðum Gest
gott er heim að sækja.

Eflir friðinn, rekkur rór,
ráð til heilla beygir,
Vilhjálmsniður vaskur Þór
vel á Bakka þreyir.

Vilhjálms skýra maktarmanns
má ei leyna högum,
nokkrum býr á hluta hans
hrjáður elli dögum

Gleðihyrinn glæðir þjáll,
gremju smáir kalda,
á Steindyrum efldur Páll
æðstu gætir valda.

Bragar annan háttinn hér
hróðarandinn rekur.
Tjarnarsóknin enduð er,
Urða nú við tekur.

    (Ferskeytt)

Fyrsta þá í þulu brags
Þverá góða nefni.
Býr í skjóli heillahags
Helgi þar við efni.

Hagur vel, með góðlátt geð
geira- skemmtir höðum,
Sveinbjörn blóma bestum með
býr á Hreiðarsstöðum.

Á æskuskeiði Ingimar
ötull, lund með glaða,
byggir kátur, keppinn, snar,
kotið - Hreiðarsstaða.

Næstan Ármann nefna má,
nýtum gæddan burðum.
Heldur bjóður seima sá
sæmdarbúi á Urðum.

Zophonías segja má
seigan lífs með þrammi;
byggir hygginn halur sá
Hól í dalnum frammi.

Vel er látinn lýðum hjá
lundur plátu glaður;
situr státinn Auðnum á
Ágúst, kátsinnaður.

Hallgrími nú hermi frá,
hraustum álmasveigi,
Í Klaufabrekkukoti sá
kynnt er mér að þreyi.

Lengi þolinn lífs við stjá,
ljúf sem gæfan styður,
Klaufabrekkum byggir á
Baldvin Arngrímsniður.

Birni Guðmunds greitt ég frá
greini í bragarkroti:
Býr sá glaði greppur á
Göngustaðakoti.

Göngustaði bætir blítt
branda- þrekinn -runnur,
Valdimar með þelið þýtt
þjóð að góðu kunnur.

Býr á Sandá beitir fés,
blíður, laus við hrekki,
jöfur randa Jóhannes
ég að góður þekki.

Ætíð blíður bús við stjá
börinn hringa dyggvi,
munarþýður þreyir á
Þorsteinsstöðum Tryggvi.

Árni prúður fríð við föng
fremst í dalatröðum,
lengst frá blíðum bylgjusöng
býr á Atlastöðum.

Siði stundar sómamanns,
safnar glaður frama;
situr Trausti hlýri hans
hluta af staðnum sama.

Una í Koti Magnús má,
maður orkuramur.
Sá er stundum höldum hjá
hýr og gamansamur.

Vinnuiðinn, hugarhreinn,
hatar styggð og reiði,
góður smiður, glaður Sveinn
gætir bús á Skeiði.

Þreyir laus við þraut og tjón,
þæg og hagsæld styður,
á Hæringsstöðum heppinn Jón.
Hann er líka smiður.

Störfum bundinn búskapar
blíður heldur velli,
járnaþundur Jóhann snar
Jónsson á Búrfelli.

Hallgrímur, vel sem heiðri ann,
hyggju elur svörin,
geymir Mela góðan rann
gróttu méla börinn.

Vestur sveitum fluttur frá,
frækinn lífs á velli,
Guðmann heitir seggur sá,
situr á Tungufelli.

Rögnvaldur með ráðin snör
rétt að mörgu hyggir.
Smár að vexti vopnabör
vel í Dæli byggir.

Pétur karlinn skarpur, skýr,
skyldu gegnir hvöðum;
ötull býr sá álmatýr
Ytri-Márs- á stöðum.

Unir Vigfús amafrí
- orð fer gott af halnum -
frjáls á Þverá frammi í
fagra Skíðadalnum.

Ei skal grenna óðarþátt,
orð renna hröð af munni,
breyti ég enn um bragarhátt
byrja senn á nýhendunni.

Óskar snjall með afbrigðum
eys af djúpum gleðiskálum.
Býr sá karl á Kóngsstöðum,
kænn í öllum vegamálum.

Ræktar státinn reiti fróns,
röskur á Kverhól búi stjórnar,
Friðrik kátur, kundur Jóns,
kröftum sínum þar til fórnar.

Fjallaskjóli fögru hjá,
frómur, dyggur, hýr og iðinn,
býr Krosshóli Eiður á,
elskar væran dalafriðinn.

Býr með sinni baugasól,
besti skýrleiks sæmdarmaður,
kraftastinnur Klængs- á -hól
Kristján hýr og dáðaglaður.

Árni ósjúkur, sinnisrór,
svalt þó fjúki lífsins veður.
Býr á Hnjúki baugaþór
blíðri dúka eyju meður.

Jóhann, fús að stilla stríð,
starfssamur og verkahraður,
gætir bús og barna í Hlíð
brandatýrinn góðsinnaður.

Frá Ingólfi fagur nú
fólki berst að eyrum hróður.
Hann í Sælu heldur bú
hugarrór og dagfarsgóður.

Með sinni glöðu Sigurðsbur
- svignar ei við lífsins trega -
á Hjaltastöðum Steingrímur
stýrir búi röggsamlega.

Vænn og prúður, vaxtar hár,
- vel að gengur hverju starfi-
situr Áskell orkuknár
ógiftur á Syðra-Hvarfi.

Friðinn þróar, hygginn, hýr,
hrannarljósa þegninn djarfi;
Tryggvi Jóhannsburinn býr
búi góðu á Ytra-Hvarfi.

Í Hofsárkoti hringagrér,
heiðursdrengur, sannur, valinn,
stilltur vel og sterkur er
Stefán fyrir búi talinn.

Ama og sút í yndi snýr
oft með sterkum rómi og glöðum,
Gamalíel gætinn býr
góðu búi á Skeggjastöðum.

Öruggt heldur, hugprúður
á Hofsá - rétt við iðu strauma
- þróttarefldur Þorleifur
þrekinn bús um stjórnartauma.

Iðinn, lengi yrkir frón,
auðugur af þjóðarlofi,
góður drengur, glaður Jón
Gíslasonur, býr á Hofi.

Stefán gætir Grafarlands,
giftuþræði spinnur fína.
Þarfleg átök iðjumanns
óbrotgjörnu verkin sýna.

Dýrrar sæmdar klæddur kjól
Kristján gleður landsins mengi.
hann á bröttum Brautarhól
búið hefur vel og lengi.

Vel með sóma á Völlum býr,
- vænna fræða ei skortir lestur -
séra Stefán sinnishýr
Svarfdælinga fróður prestur.

Kristján mun ég nefna mann,
má ég honum gleyma varla;
hann Uppsala ræður rann,
röskvan má til starfa kalla.

Örugg stendur - ekki flýr -
- ein í lífsins straumabroti -
ekkja’ að nafni Anna, býr
Uppsala- í hrumu -koti.

Í Miðhúsum bóndabekk
bragni situr - elli móður -
Þorleifs heiti hlotið fékk,
hyggjuríkur, meginfróður.

Hánefsstaða húsbóndinn
heitir Pétur - greinir baga -.
Vel hann styður velgengnin.
Verði svo um alla daga.

Sagnafróður, sinnisþjáll,
sem að rétt í öllu breytir.
Hjartararfi iðinn Páll
Ölduhryggnum forráð veitir.

Á Sökku stundar sæmdarbú,
- sínu að hlúir móðurfróni -
Gunnlaugur með góðri frú.
Gæfan holl þeim báðum þjóni.

Guðjón býr með blíðuþel
Baldvinsson - það lýðir róma -
hyggjuskýr og skarpur vel
á Skáldalæk með hefð og sóma.

Hlíðum fjalla háum nær,
heimsins fjarri tísku-glamri,
bú sitt stundar stilltur fær
sterkur Gunnlaugur á Hamri.

Best á Hrísum bræður tveir
búi góðu forráð veita.
Ólafur og Árni þeir
álma- snjöllu -viðir heita.

Þorsteinn nefnist naddatýr,
núna sá um þennan tíma
með höfðingsrausn á Hálsi býr.
Hérmeð endar þessi ríma.

Ég í góðum glettuvind’,
glæfra oft í ferðum heppinn,
Suðra- hefi -suðahind
siglt í kringum allan hreppinn.

Sérhvern, sem að les mitt ljóð
- lagað mitt í dagsins önnum-
heillum krýni Gæfa góð.
Guðsfriður með öllum mönnum!
 

  


 

p