Kvæða- og vísnasafnið Haraldur

Söfn

Íslenska
Nynorsk
Esperanto

Persónuvernd:

Vefurinn safnar engum upplýsingum um notendur sína. Leturgerðir eru frá Google sem skráir notkun á þeim.
Vefkökur (cookies) eru aðeins notaðar til þess að halda utan um innskráningar þeirra sem annast efnisstjórn.

Jóhann frændi

Fyrsta ljóðlína:Komin eru að leiðarlokum
Viðm.ártal:≈ 1975
Tímasetning:08.12 1984

Skýringar

Eftirmæli un Jóhann Kristinn Pétursson (Jóhann Svarfdæling)sem jarðsettur er í Dalvíkurkirkjugarði 08.12. 1984
Jóhann og Haraldur voru frændur
Komin eru leiðarlokin.
Lífsins gáta ráðin er.
Undan sínum æfislitum
enginn getur forðað sér.
Fyrir bleika feigðarljánum
fyrr eða síðar hnígur hver.

Þæg var hvíldin þreyttum manni.
Þrauta sárra slokknuð glóð.
Oft á tíðum æfigata
ærna lá á brattans slóð.
Þungt var stundum fyrir fæti,
færðin reyndist miður góð.

Ungur fór hann yfir hafið
ókunnugra landa til.
Efalaust þá orðið hefur
í hans lífi þáttaskil.
Vistin lengdist í Vesturheimi
varaði um áratugabil.

Einhvernvegin aldrei naut hann 
umhyggju hins nýja lands.
Reikaði stundum raunamæddur
refilstigu einfarans.
Heim til fróns og föðurtúna 
flaug þá löngum sefi hans.

Furðu hár að vexti var ’ann.
Vart munu um það dæmi tvenn.
Kunnur af um veröld víða.
Verða mun svo lengi enn.
Höfuð bar og herðar yfir
hvar sem fór hann- aðra menn.

Hvar sem frænda leiðir lágu
landi og þjóð til sóma var.
Víða um lönd og einnig álfur
Íslands nafn og hróður bar.
Hreinum sínum heiðursskildi
hélt á lofti, allstaðar

Hrófatildri og heimsins prjáli
hafði aldrei mætur á.
Greindi fljótur rétt frá röngu,
rökin aldrei brugðust þá.
Vandaður til verka og orða.
Virðing fylgdi og æra há.

Ár og daga orðstír ljómar 
yfir víðan landa hring.
Kappans horfna hvergi fyrnist
kostagnótt og hyggja slyng.
Þjóðin krýnir þökk og heiðri
þennan gengna Svarfdæling.

Frændi kær nú farinn ertu
fyrirheitna landsins til.
Er þar birta ævarandi.
Engin dægra og náttaskil.
Þar er góðum gott að vera,
guðs í friði, ljósi og yl.