Minni Vestur-Íslendinga | Kvæðasafn Borgfirðinga
Kvæðasafn Borgfirðinga

Innskráning ritstjóra

Minni Vestur-Íslendinga

Fyrsta ljóðlína:Nú rennum vér huganum vestur um ver
Viðm.ártal:≈ 1900

Skýringar

Kvæðið Minni Vestur-Íslendinga var sungið undir laginu „Þú, vorgyðja, svífur úr suðrænum geim“ á Þjóðminningardegi Borgfirðinga og Mýramanna sem haldinn var hátíðlegur á Hvítárbökkum þann 7. ágúst 1898. Séra Ólafur Ólafsson í Lundi hélt einnig ræðu fyrir minni Vestur-Íslendinga við sama tækifæri.
Nú rennum vér huganum vestur um ver
og vitjum þar gamalla landa,
sem bústaði fjarlæga bygt hafa sér,
en búa þó með oss í anda;
þeir unna oss sjálfum, þeir elska vort land,
þá auðna vor gleður, þá hryggir vort grand.

Og því er það eins, ef þeir búa við böl,
mun blóðið til skyldunnar streyma;
að vita þá hrygga, það væri oss kvöl
og vildum að dveldu þeir heima;
en eigi þeir hamingju, sigur og seim
og sólskin í huga, vér gleðjumst með þeim.

En hvar sem vér lifum og hvernig sem fer
og hvað sem á leiðinni mætir,
þá vitum það bæði þar vestra og hér,
að vinátta styrkir og kætir,
og látum því aldrei að eilífu spurt,
að óvild þeim sýnum, er leituðu burt.